Fréttir

Hamingjustund

Ásta, Daniela og Árni
Ásta, Daniela og Árni

Ásta Bjarney, Árni sonur hennar og Jette móðir hennar lögðu land undir fót til að hitta litlu systur Árna í Tékklandi. Þau sameinuðust nú í dag á barnaheimilinu þar sem hún hefur dvalið. Þegar Ásta, Árni og amma komu á barnaheimilið beið Daniela í gættinni á herberginu sínu og fylgdist með komu þeirra. Hún var feimin í fyrstu en bauð þeim svo inní herbergið sitt og sýndi þeim gullin sín, myndaalbúmið sem þau höfðu sent henni með myndunum af þeim og myndirnar af líffræðilegum systkinum sínum sem hún var búin að bæta í það. Árni og mamma gáfu Danielu Pónýhesta með hárgreiðsludóti og amma gaf henni föt. Brátt var brugðið á leik með hárgreiðsludótið og vildi Daniela fá fléttu í hárið eins og mamma var með í toppnum og bæta hárskrautinu við. Mamma og amma voru svo dregnar á upplýsingafund en Árni og Daniela léku sér hjá fóstrunni og fengu gott næði til að kynnast betur.
Eftir hádegismat fóru þau svo í gönguferð um bæinn og leiddi Daniela þau á uppáhals leikvöllinn sinn.  Þar var vegað salt og farið í eltingaleik með mömmu og hoppað á trampólíninu þar til að allir voru orðnir uppgefnir, en þá var farið á kaffihús til að fá sér smá hressingu.
Þegar leið á daginn fór Daniela aftur á barnaheimilið, þar sem þau kvöddust og var mikil tilhlökkun að hittast aftur á morgun.
Ásta segir sjálf frá: „Ég á yndislegar minningar af þessum degi og ein af þeim er hamingjan sem ég fann í hjartanu þegar ég gekk upp götuna með börnin mín tvö í sitt hvorri hendi. Hlýir litlir lófar sem þora að treysta mér. Annað af því að það veit að það er hægt en hitt að taka sénsinn á að ég sé eftir allt OK“. 

Umsókn Ástu Bjarneyjar var samþykkt af yfirvöldum 19. ágúst 2014 og var hún pöruð við Danielu 3. september 2015. Ásta Bjarney var því á biðlista í rúmt ár.

Ásta Bjarney er fyrsta einhleypa konan sem ættleiðir tvö börn með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar.


Svæði