Fréttir

Ímyndunaraflið og af hverju skiptir það ættleidd börn máli?

Jórunn Elídóttir
Jórunn Elídóttir

Jórunn Elídóttir, dósent við Háskólann á Akureyri, doktor í sérkennslu- og menntunarfræðum og móðir stelpu sem er ættleidd frá Kína flutti erindi um ímyndunarafl ættleiddra barna. Erindi Jórunnar var sérlega áhugavert og gaf innsýn inní þann skort sem ættleidd börn lifa við þegar kemur að minningum um fyrsta skeið ævinnar.

Ímyndunaraflið og af hverju skiptir það ættleidd börn  máli?

Ímyndunaraflið er merkilegt fyrirbæri eins rannsóknir hafa staðfest á margvíslegan hátt. Ímyndunaraflið færir okkur nýja sýn á tilveruna, undirbýr okkur fyrir það sem kemur og breytir ásýnd þess sem hefur verið, á eftir að gerast eða ekki gerast. Með því að nota ímyndunaraflið hefur manneskjan getað umbreytt og endurskapað veröldina á óendanlega fjölbreyttan hátt. Þetta er kjarninn í tilveru barna og einn mikilvægasti hlekkurinn í leik og þroska þeirra.

Börn sem hafa orðið fyrir áföllum eiga mörg hver erfitt með að nota ímyndunaraflið í leik. Það þarf jafnvel að kenna þeim að leika sér og nota ímyndunaraflið í hugsun og verki. Slíkt skiptir máli þar sem ímyndunaraflið er ein öflugasta leiðin til að auka við þekkingu og þroska barna. Börn sem eru ættleidd hafa oft það sem kalla má „eyður í lífinu“ sem erfitt er að fylla inn í, þau vita t.d. oftast lítið um lífið fyrir ættleiðinguna eða annað tengt lífinu í upprunalandinu eða lífforeldra. Foreldar ættleiddra barna reyna með sögum, myndum eða öðru að skapa minningar um eitthvað sem lítið er vitað um og börnin hafa litla tengingar við t.d. upprunalandið, tímann fyrir ættleiðinguna og fleira. Minningar og tengsl við upprunann, hver svo sem hann er, er talinn vera stór hluti af sjálfsmynd ættleiddra barna, meðvitað eða ómeðvitað. Ímyndunaraflið leiðir börn áfram í spurningum og leit og hlutverk foreldra er þar mikilvægt við að hjálpa þeim að búa til „raunverulegar“ minningar og þekkingu um þessi málefni. Velta má fyrir sér hvort foreldrar ættleiddra barna séu meðvitaðir um hvað börnin þeirra hugsa og ímynda sér um þessi málefni.

Í erindi Jórunnar á málþingi Íslenskrar Ættleiðingar þann 16. mars sl. sagði hún frá könnun sem hún gerði meðal lítils hóps ættleiddra barna. Þetta var forkönnun sem er hugsuð til að vinna áfram með og leita þá til stærri hóps. Markmið könnunarinnar var að skoða hvort og hvað börn hugsa og ímynda sér um upprunann og annað tengt honum.

Börnin voru á aldinum 10 til 16 ára og svöruðu 15 börn rafrænni könnun, með samþykki foreldra. Meirihluti barnanna voru stúlkur ættleiddar frá Kína. Spurningarnar voru 10 flestar í nokkrum liðum. Mikill samhljómur var í niðurstöðunum og kom skýrt fram að nær öll börnin hafa hugsað mikið um málefni er tengist uppruna sínum. Fram kom að rúmur helmingur barnanna hugsar t.d. um hvernig lífið hefði verið ef þau hefðu ekki verið ættleidd. Þau hugsa líka flest um hvort þau líkist lífforeldrum eða hafa áhugasvið sem tengist þeim á einhvern hátt, einungis fjögur þeirra hugsa aldrei um slíkt. Öllum nema tveimur langar að finna eða hitta líffræðilega skyld systkini ef það væri hægt. Meirihluta barnanna finnst skipta máli að eiga minningar um upprunan, fá svör við ýmsum spurningum og leita að uppruna síns. Þeim finnst einnig skipta máli að foreldra tali um þessi málefni að fyrrabragði. Minna máli skiptir að tala um þetta við vinina. Börnin hafa einnig ímyndað sér eitt og annað, t.d. hafa flest notað ímyndunaraflið til að skilja af hverju þau voru skilin eftir og ættleidd og einnig hvernig það væri að vera líkur útlits eins og flestir í bekknum. Ímyndunin nær einnig til þess að gera sér í hugarlund hvernig lífforeldrar þeirra líta út og hvort þau eigi systkini í upprunalandinu. Þau hafa mörg ímyndað sér að foreldra þeirra sem ættleiddu þau týni þeim eða þau týnist (verði viðskila). Helmingur barnanna hefur gúgglað eitt og annað um uppruna sinn.

Fleira koma fram sem sýnir að þessi hópur barna hefur hugsað margt og ímyndað sér eitt og annað sem væri forvitnilegt að kanna áfram. Einnig eru þetta málefni sem foreldar ættleiddra barna ættu að fylgjast með gegnum uppvöxt barnanna ekki síst í ljósi þess að misvísandi upplýsingar geta koma fram í gegnum skjámiðla sem börn hafa aðgang að í dag. Huga þarf að því hvert ímyndunaraflið leiðir börn og unglinga og hvað þau hugsa um. Því þarf að hjálpa þeim til að byggja upp raunhæfar væntingar og þekkingu um sjálfan sig, upprunann og fleira því tengt. Hafa þarf í huga hvað foreldar vilja að ráði för, Google, skjámiðlar eða samræður í fjölskyldunni og góða uppbyggjandi hugsanir.

Heimildir:
Egan, K. (2005). An imaginative approach to teaching. San Francisco, Jossey- Bass.
Godon-Decoteau. D. og Ramsey. P.G. (2018). Positive and negative aspects of transracial adoption: An exploratory study from Korean transracial adoptees' perspectives. Adoption Quarterly, 21:1, 17-40,

Reinoso. M., Juffer. F og Tieman. T. (2013). Children’s and parents’ thoughts and feelings about adoption, birth culture identity and discrimination in families with internationally adopted children. Child and family social work 18, bls. 264–274

Shaw. J. ( 2011). (Re)constructing the past: the role of memory and imagination among transnationally adopted children and their adoptive parents. Platforum.12.

Pylypa, J. ( 2018). Talking about culture with internationally adoptive parents: An anthropological perspective. Adoption Quarterly.


Svæði