Fréttir

Indlandsheimsókn á enda

Ráðstefnu Cara um ættleiðingar á Indlandi er nú lokið. Sendinefnd Íslendinga hefur orðið margs vísari og mun greina frá því á kynningu með félagsmönnum á næstu dögum.

Miðstjórnvaldið íslenska var í för með fulltrúum ættleiðingarfélagsins eins og komið hefur fram og það var mikils virði fyrir okkur að bæði ráðherrann okkar og ráðuneytisstjórinn höfðu tækifæri til að sitja fyrsta hluta ráðstefnunnar.

Krishna Tirath ráðherra velferðar barna og kvenna í Indlandi setti ráðstefnuna og gafst Ögmundi Jónassyni Innanríkisráðherra tækifæri til að ræða við hana. Síðar þennan sama dag var sérstakur fundur sendinefndarinnar með ráðuneytisstjóranum Prem Narain í ráðuneyti Krishnu sem var ánægjulegur.

Ögmundur Jónasson lýsti fyrr ráðuneytisstjóranum nánu samstarfi ráðuneytis hans við ættleiðingarfélagið og hve mikils virði væri fyrir okkur að Cara hefði lýst því yfir að endurnýjun á löggildingu Íslenskrar ættleiðingar verði afgreidd fljótt og örugglega.

Við kynntum fyrir ráðuneytisstjórnaum hið góða samstarf sem við höfum átt við ISCR, stofnun Anju Roy í Kolkata og áhuga okkar og Anju á að koma á skipulögðu samstarfi vegna upprunaleitar þeirra Íslensinga sem hafa verið ættleiddir þaðan.

Ráðuneytisstjórinn sagðist hafa mikinn áhuga á að slíku skipulagi verði komið á og sagði frá því að Cara hafi í huga að gefa út leiðbeiningar varðandi slíkt skipulag. Narain sagði jafnframt að tilgangurinn með breytingunum á löggjöfinni í Indlandi sem nú standa yfir, væri að fjölga börnum sem eignast fjölskyldu og því muni ættleiðingum væntanlega fjölga innanlands og til annara landa.

Ráðstefnan sjálf sem stóð í þrjá daga var upplýsandi á margan hátt. Sum móttökuríki lýstu velferðarkerfi sínu, vísindamenn fjölluðu um tölfræði ættleiðinga og nýjar rannsóknir á áhrifum stofnanauppeldis á þroska heilans. En fróðlegast var að heyra félög sem nú eiga í samskiptum við Cara greina frá reynslu sinni.

Augljóst er að Cara á eftir að vinna mikið verk áður en rafræna skráningarkerfið fer að ganga eðlilega og liðlega fyrir sig. Innlendu félögin sem reka barnaheimilin gagnrýndu Cara einnig harðlega og lýstu yfir miklum áhyggjum.

Eins og áður segir verður kynningarfundur fyrir félagsmenn ÍÆ um ferð okkar til Indlands, nýju reglurnar frá Cara og þróun þeirra, en á þessari stundu getum við sagt að við teljum rétt að halda áfram að vinna að endurnýjun á löggildingu ÍÆ á Indlandi og við teljum að vilji sé hjá Cara til að gera þær endurbætur sem þarf svo ættleiðingar geti gengið eðlilega fyrir sig á Indlandi.


Svæði