Fréttir

Kynning á frambjóðendum

Á aðalfundi Íslenskrar ættleiðingar verða fjórir einstaklingar kosnir í stjórn félagsins og einn til vara, allir til tveggja ára. Í lögum félagsins segir um framboð til stjórnarkjörs: Framboð til stjórnarkjörs skulu berast skriflega til skrifstofu félagsins í síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalfund.

Stjórn Í.Æ. bárust sex skriflegar tilkynningar um framboð til stjórnarkjörs. Þær sendu Elín Henrikssen, Finnur Oddsson, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, Karen Rúnarsdóttir, Karl Steinar Valsson og Margrét R. Kristjánsdóttir.

Elín Henriksen á tvö börn, Bjarna Anton 5 ára og Alexöndru 2 ára sem ættleidd eru frá Moskvu. Hún hefur komið að ættleiðingarmálum frá árinu 2003 er þau hjónin hófum ættleiðingargöngu sína. Hún er ein af stofnendum Foreldrafélags ættleiddra barna og sömuleiðis Alþjóðlegrar ættleiðingar og starfar í stjórnum þeirra félaga. Ættleiðingarmálaflokkurinn er henni afar hugleikinn og hún hefur áhuga á að láta til sín taka. Elín er erindreki Íslenskrar ættleiðingar í því að kanna möguleikana á hvort unnt sé að koma á ættleiðingarsambandi milli Íslands og Rússlands.

Finnur Oddsson er fjölskyldumaður, búsettur í Reykjavík ásamt eiginkonu og tveimur sonum. Finnur er menntaður í sálfræði (Ph.D.) á Íslandi og í Bandaríkjunum þar sem hann bjó í sex ár við nám og störf. Eftir heimkomu til Íslands hefur Finnur lengst af starfað sem háskólakennari og stjórnandi við Háskólann í Reykjavík en síðustu ár hjá Viðskiptaráði Íslands. Finnur hefur setið í stjórn Íslenskrar ættleiðingar síðustu tvö ár og er varformaður félagsins. Finnur er á biðlista eftir ættleiðingu frá Kína.

Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir er búsett í Reykjavík og starfar við Háskóla Íslands, er í tímabundnu leyfi eins og er frá starfi sínu sem sviðsstjóri starfsmannasviðs. Hún er gift Halldóri Inga Guðmundssyni og á eina fósturdóttur Hildi Guðrúnu Halldórsdóttur. Guðrún er félagsfræðingur frá HÍ og er með meistaragráðu í stjórnun frá Bretlandi. Guðrún hefur sinnt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum og er m.a. ein af stofnendum Alþjóðlegrar ættleiðingar. Helsta baráttumál Guðrúnar innan sjórnar Í.Æ. kæmist hún að, væri að afla nýrra sambanda á milli íslands og annarra ríkja um ættleiðingar og fjölga þar með kostum íslendinga til að ættleiða frá öðrum ríkjum.

Karen Rúnarsdóttir 35 ára er gift Högna Jónssyni. Viðskiptafræðingur og starfar hjá Íslandsbanka. Barnlaus en í hópi 19 til Kína. Hefur setið í stjórn Alþjóðlegrar ættleiðingar frá stofnun félagsins og hefur á þeim tíma öðlast reynslu og innsýn inn í ættleiðingarmál. Hennar skoðun er sú að það sem ÍÆ þarf að setja á oddinn er öflun nýrra sambanda og hagsmunamál s.s. túlkun ráðuneytis á vinnureglum ofl. Karen talar spænsku og vonast til að það geti hjálpað til í samskiptum við Kólumbíu.

Karl Steinar Valsson fæddur og búsettur í Reykjavík. Giftur og á eina dóttur sem ættleidd er frá Kína. Karl Steinar hefur starfað sem lögreglumaður í rúmlega 20 ár og starfar núna sem yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglu. Karl Steinar er menntaður afbrotafræðingur auk meistaragráðu í viðskiptafræði. Karl Steinar hefur mikið starfað að félagsmálum bæði innan lögreglu og ýmissa félagasamtaka. Karl Steinar starfaði sem varaformaður IÆ frá 2006 til 2008 og var aftur kjörinn í stjórn félagsins á aukaaðalfundi síðastliðið vor.

Margrét R Kristjánsdóttir Margrét R Kristjánsdóttir er gift Þórir Þórissyni
og eiga þau tvær dætur eina 18 ára og eina 5 ára ættleidda stúlku frá Kína, sem kom til Íslands 2006. Margrét er lyfjafræðingur að mennt og starfar á Lyfjadeild Sjúkratryggingum Íslands. Margrét hefur starfað með hagsmunahópi varðandi styrki til ættleiðingar og síðar í hagsmunanefnd Foreldrafélagsins. Hún kom inn sem varmaður í stjórn ÍÆ vorið 2009 og hefur starfað með stjórninni síðan þá og hefur áhuga að starfa áfram í þágu félagsins.


Svæði