Fréttir

Leiðarljós í umræðunni

Guðmundur Rúnar Árnason
Guðmundur Rúnar Árnason

Hjá Íslenskri ættleiðingu eru mikil verðmæti til í þekkingu sem safnast hefur saman á undanförnum árum og áratugum. Mikilsvert er að sú þekking nýtist félaginu í störfum þess í dag en verði ekki glatkistunni að bráð. Hér er til dæmis ágætur leiðari úr tímaritinu okkar frá 2003 en leiðarann skrifaði þáverandi ritstjóri Ættleiðingar.

Göngum í takt

Opin og fordómalaus umræða er alltaf til góðs. Það gildir ekki síður um ættleiðingar en annað. Á sama hátt er niðurbæld og fordómafull umræða ævinlega neikvæð.

Félagið okkar - Íslensk ættleiðing - er hagsmunafélag. Það vinnur að hagsmunum þeirra sem af einhverjum ástæðum hafa kosið að leita eftir því að ættleiða börn. Gildir þá einu hvort ættleiðingin er um garð gengin eða hvort undirbúningur er enn í gangi. Það vinnur einnig að hagsmunum barna sem bíða ættleiðingar á þeim stöðum sem félagið hefur samskipti við. Það gefur auga leið, að fólk sem gefur kost á sér til starfa fyrir félag af þessu tagi er ekki að sækjast eftir vegtyllum. Það er ekki að sækjast eftir fjárhagslegri umbun. Umbunin sem fylgir því þegar vel gengur og árangur næst er næg.

Af því að félagið okkar er hagsmunafélag hlýtur það að lúta sömu lögmálum og önnur hagsmunafélög. Lykillinn að árangri hagsmunafélaga er samkennd og samstaða félaganna. Við getum haft margs konar skoðanir, á stjórnmálum, bókmenntum, tónlist, barnauppeldi og næstum hverju sem er. Það sem tengir okkur eru sameiginlegur áhugi og hagsmunir á afmörkuðu sviði. Þessum hagsmunum höfum við fundið farveg í félaginu okkar.

Endrum og sinnum skýtur upp kollinum umræða á opinberum vettvangi um ættleiðingar frá útlöndum. Mikilvægt er að félagsmenn sem taka þátt í slíkri umræðu geri það á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og hafi hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Sumt af þessari umræðu og þau sjónarmið sem stundum hafa verið viðruð hafa ekki verið til þess fallin að vinna málstað okkar og hagsmunum gagn.

Það reynir á að bíða eftir barni. Þekkt eru dæmin af alls kyns hremmingum og stundum er réttlætiskenndinni misboðið. Þau gera biðina síst léttari. Þá reynir á samstöðu okkar og félagsþroska. Við verðum að gæta þess að beina óánægju okkar og vonbrigðum – ef upp koma - í eðlilegan farveg og gæta þess að valda ekki skaða. Því hvernig sem okkur kann að vera innanbrjósts, verðum við að gæta þess að gera ekkert það sem getur skaðað hagsmuni félaga okkar og málstaðinn til lengri tíma litið. Það getur vissulega verið erfitt, en stundum þarf að fórna minni hagsmunum fyrir meiri – hversu sárt sem það getur nú verið. Eftir því leiðarljósi verður stjórn og starfsfólk að vinna og þannig hefur það fólk unnið þann rúma hálfa áratug sem ég hef fylgst grannt með störfum félagsins.

Íslensk ættleiðing er lýðræðislegt hagsmunafélag. Um það gilda bæði sömu reglur og sömu lögmál og önnur slík félög. Við – félagarnir – kjósum okkur stjórn á aðalfundi til að stýra félaginu til næsta aðalfundar. Við megum þó aldrei gleyma því að lýðræði í félagi sem þessu snýst ekki bara um rétt okkar. Það snýst ekki síður um skyldur. Á milli aðalfunda ber okkur skylda til að standa þétt að baki réttkjörinni stjórn og því sem hún ákveður hverju sinni. Það gildir þó okkur líki e.t.v. ekki einstakar ákvarðanir. Við höfum tækifæri til að tjá okkur á aðalfundum og þeir eru sá vettvangur sem við eigum að nota til að láta í ljós skoðanir okkar og vinna þeim framgang. Á milli aðalfunda göngum við í takt og fylkjum okkur að baki stjórn. Þannig vinnum við hagsmunum okkar og málstað mest gagn.

Auðvitað starfar langstærstur hluti félaganna í þessum anda. En þegar frávik verða, þurfum við að reyna að færa þau til betri vegar, því neikvæða umræðan veikir félagið og bitnar ekki á neinum öðrum en okkur sjálfum.

Íslensk ættleiðing er félagið okkar. Á vettvangi þess höfum við skyldur gagnvart öðru fólki í svipuðum sporum, með sömu hagsmuni. Látum það vera leiðarljós í umræðunni.

 

Höfundur er Guðmundur Rúnar Árnason
og í undirmálsgrein í tímaritinu var þess getið
að greinin túlkar sjónarmið þess sem hana skrifar,
en ekki nauðsynlega stjórnar eða annarra fulltrúa í ritstjórn.

Svæði