Fréttir

MBL - Geta brátt lagt af stað heim

„Það hefur gengið mjög vel hjá okkur fjölskyldunni seinustu daga. Nú erum við komin með alla þá pappíra sem við þurfum hér í Kólumbíu sem staðfesta ættleiðinguna. Við fengum vegabréfin fyrir stelpurnar í gær og var alveg dásamleg tilfinning að vera loksins með þau í höndunum. Núna vantar okkur bara vegabréfsáritun fyrir stelpurnar, hún er send frá Íslandi í sænska sendiráðið hér í Bogota. Þegar við erum komin með hana límda inn í vegabréfin getum við lagt af stað heim til Íslands.“

Þetta kemur fram í orðsendingu frá hjónunum Bjarnhildi Hrönn Níelsdóttur og Friðriki Kristinssyni og dætrum þeirra tveimur, Helgu Karólínu og Birnu Salóme, á facebooksíðu tileinkaðri þeim, en þau fóru til Kólumbíu í desember í fyrra til þess að ættleiða stúlkurnar og hafa verið þar síðan. Þar hafa þau gengið í gegnum mikla erfiðleika og þá einkum vegna dómara við kólumbískan undirrétt, sem þau hafa kallað dómara nr. 9, sem virtist leggja áherslu á að hindra ættleiðinguna.

„Við fengum þær gleðifréttir að það sé búið að banna dómara nr. 9 að taka að sér fleiri ættleiðingarmál. Tribunal-hæstiréttur í Medellin og ICBF-ættleiðingarstofnun eru að leggja fram kvörtun vegna framgöngu hans í okkar máli. Við erum varla að trúa því að þetta sé loksins að taka enda. Við erum svo rosalega glöð, lífið er svo dásamlegt! Takk fyrir allar fallegu kveðjurnar og stuðninginn elsku þið öll sem hafið stutt okkur í þessu erfiða ferli. Við erum ykkur mjög þakklát og hefðum ekki getað gert þetta án ykkar allra!“ segir ennfremur í orðsendingunni.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/11/30/geta_bratt_lagt_af_stad_heim/


Svæði