Fréttir

Morgunblaðið - Er þetta símtalið?

Forsíða Morgunblaðsins
Forsíða Morgunblaðsins

Þau Anna Sigrún og Gunn­ar Lár­us sofa ekki mikið út á næst­unni en hafa ekki áhyggj­ur af því. Draum­ur þeirra um að eign­ast börn rætt­ist held­ur bet­ur í vor þegar þau ætt­leiddu tékk­nesku tví­bur­ana Katrínu Þóru og Óskar Þór sem dafna vel hjá for­eldr­um sín­um.

Í Reykja­vík­ur­m­araþoni hlaupa þau hjón­in tíu kíló­metra fyr­ir Íslenska ætt­leiðingu, en þau segja að án henn­ar væru þau ekki fjög­urra manna fjöl­skylda í dag.

Ætt­leiðing er val­kost­ur

Anna Sigrún og Gunn­ar Lár­us kynnt­ust þegar hún var tví­tug og hann 25 ára. „Ég kynnt­ist hon­um þar sem hann leigði með kær­asta vin­konu minn­ar og við urðum par nán­ast kort­eri seinna. Það var eig­in­lega ást við fyrstu sýn,“ seg­ir hún og hlær.Óskar Þór er glaður og kátur tveggja ára drengur sem ...

Árin liðu og þegar átti að stækka fjöl­skyld­una varð ljóst að Anna Sigrún yrði ekki ólétt. „Við sáum það fljótt, við fór­um ekki í nein­ar meðferðir eða slíkt en það var al­veg aug­ljóst og við sáum að við yrðum að fara ein­hverja aðra leið. Og þegar við ákváðum að fara að gera eitt­hvað í því sáum við að ætt­leiðing væri eitt­hvað fyr­ir okk­ur. Það var bara þannig. Það eru mjög marg­ir sem halda að þetta verði allt að koma í ákveðinni röð, að maður verði fyrst að prófa og reyna, síðan fara í lækn­is­fræðileg­ar meðferðir og svo sé ætt­leiðing síðasta úrræðið. Það er ekki þannig, þetta er einn af mögu­leik­un­um. Sem bet­ur fer eru þeir marg­ir,“ seg­ir Anna Sigrún.

Hún seg­ist ekki hafa íhugað að reyna gla­sa­frjóvg­un. „Nei, það kost­ar mikið, er mikið álag á sál og lík­ama og ekk­ert er ör­uggt. Við höf­um staðið sam­an í gegn­um sam­bandið og vild­um standa jafnt í gegn­um þetta. Gla­sa­frjóvg­un reyn­ir alltaf svo mikið á pör; ann­ar aðil­inn þarf að fara í gegn­um erfiðar meðferðir og hinn stend­ur eig­in­lega bjarg­arlaus á kant­in­um. Ég hef aldrei haft þessa þörf fyr­ir að ganga með barnið, eins og ég veit að marg­ar kon­ur hafa og vilja þess vegna prófa lækn­is­meðferðir. Svo er fólk líka upp­tekið af blóðtengsl­um en við vor­um ekki mjög upp­tek­in af þeim,“ seg­ir Anna Sigrún og bæt­ir við að hún hafi fylgst með ætt­leiðingu lít­ils frænda og séð hvernig það gekk fyr­ir sig. „Við finn­um það líka í dag, að svona átti þetta að vera.“

Sett í „blekk­lessu­próf“

Hjón­in ákváðu að snúa sér til Íslenskr­ar ætt­leiðing­ar og hefja ferlið að fá að ætt­leiða barn. „Fyrst þarf að fá for­samþykki á Íslandi og ákveða hvaða land maður vel­ur. Lönd­in sem voru í boði og voru al­veg opin voru Tékk­land, Kína og Tógó og við völd­um Tékk­land. Við sáum að það var hægt að sækja um systkini í Tékklandi og það fyrsta sem Gunni sagði var: Þá þurf­um við ekki að gera þetta aft­ur,“ seg­ir hún og hlær. „Við hugsuðum að það væri erfitt að fá systkini en líka gam­an að þau hafi hvort annað og hafi þessa teng­ingu. Við vor­um til­bú­in til að fara upp í hærri ald­ur en tveggja ára og al­veg upp í fimm ára. Það er óal­geng­ara hér á Íslandi að það séu eldri börn ætt­leidd, þó að það þekk­ist al­veg t.d. frá Tékklandi.“

Katrín Þóra litla er mikil partýbomba að sögn móður hennar, ...

For­samþykkið var veitt haustið 2014, inn­an við hálfu ári frá um­sókn­inni, en Anna Sigrún seg­ir að ferlið geti tekið ár í dag. Næst þurfti að senda um­sókn­ina til Tékk­lands og þá tók við gagna­söfn­un, ít­ar­leg­ar lækn­is­rann­sókn­ir og heim­sókn­ir til sál­fræðinga. 

„Við fór­um í blekk­lessu­próf! Tékk­land er held ég eina landið sem enn not­ar það í þessu ferli. Mér fannst það mjög fyndið, og skemmti­legt, en út úr því kom skýrsla sem lýsti okk­ur ná­kvæm­lega,“ seg­ir hún og hlær. 
„Tutt­ugusta apríl árið 2015 fáum við svo samþykki í Tékklandi. Og þá var í raun ekk­ert sem hægt var að gera annað en að bíða.“

„Tuttugusta apríl árið 2015 fáum við svo samþykki í Tékklandi. Og þá var í raun ekkert sem hægt var að gera annað en að bíða.“

„Hvernig sæki ég að þér?“

Biðin var á enda hinn 1. fe­brú­ar 2017 þegar loks var hringt með tíðind­in. „Við feng­um svo sím­tal. Krist­inn hjá Íslenskri ætt­leiðingu hringdi í há­deg­inu. Ég var sof­andi; það var í síðasta skiptið sem ég svaf út senni­lega næstu átján árin,“ seg­ir hún og skelli­hlær. „Þá hringdi hann og ég fékk skrítna til­finn­ingu þegar ég sá Íslenska ætt­leiðingu á sím­an­um,“ seg­ir hún og út­skýr­ir að auðvitað hafi hún oft áður fengið sím­töl þaðan varðandi ferlið. Í þetta sinn var það öðru­vísi. „Ég svaraði og hann sagði: Sæl, hvernig sæki ég að þér? Og ég var ein­hvern tím­ann búin að heyra að þetta hefði hann sagt svona áður,“ seg­ir hún og seg­ir hann hafa beðið hana að bíða augna­blik og svo kom á biðtónlist. Þá var hann að hringja í Gunn­ar og tengja þau þrjú í hópsím­tal. Hún seg­ist ekki hafa komið upp orði og hún horfði á mann­inn sinn og sím­ann til skipt­is og hann hafi spurt hana hvað væri að. „Ég gat ekki sagt neitt. Svo byrjaði sím­inn hans að hringja. Og ég fór bara að há­grenja,“ seg­ir Anna Sigrún og fær gleðitár í aug­un við til­hugs­un­ina og blaðamaður með. 

Við tók gleðihróp í sím­ann til Krist­ins. „Við erum hérna sam­an, er þetta sím­talið?“ seg­ist hún hafa hrópað í sím­ann. 
„Þetta er mesti til­finn­inga­rúss­íbani sem við höf­um farið í gegn­um,“ seg­ir hún. „Og hann sagði: Já, þetta er sím­talið.“
Eft­ir­vænt­ing­in var mik­il að vita hvaða barn eða börn ættu eft­ir að verða þeirra. „Og af því við vor­um búin að sækja um systkini upp að fimm ára héld­um við kannski að við mynd­um fá þriggja til fimm ára börn. En mamma var búin að segja við mig nokkr­um sinn­um, sem er svo fyndið af því að ég trúi ekki á neitt svona: Mér finnst bara eins og þið eigið eft­ir að eign­ast tví­bura! Ég sagði henni að hætta að segja svona, ég tryði ekki á neitt slíkt. En hún sagði að sér liði eins og við ætt­um eft­ir að eign­ast unga tví­bura. En við vild­um ekki byggja upp of mikl­ar von­ir,“ út­skýr­ir Anna Sigrún.

Há­grét all­an dag­inn

Úr svefn­her­berg­inu heyr­ist í lít­illi barns­rödd. Anna Sigrún geng­ur þar inn og seg­ir: „Ertu vaknaður, ást­in mín?“ Hún kem­ur út með lít­inn úf­inn snáða með stór dökk augu sem stara syfju­leg á blaðamann. Óskar Þór er þar kom­inn og stuttu síðar vakn­ar syst­ir hans, Katrín Þóra. „Óggar gáta,“ seg­ir sú stutta og er að segja móður sinni að Óskar sé að gráta. 

Gunn­ar tek­ur börn­in og hún held­ur áfram með sög­una. Við erum stödd nefni­lega í miðju sím­tali.

„Og hvað og hvað!?“ seg­ist hún hafa spurt Krist­in. „Þetta eru tví­bur­ar, sagði hann og við spurðum hve gaml­ir. Hann sagði þau fædd 25. júní 2015, sem var líka miklu yngra en við bjugg­umst við. Ég var há­grát­andi allt sím­talið og rest­ina af deg­in­um,“ seg­ir Anna Sigrún. 
Stuttu síðar fengu þau send gögn en eng­ar mynd­ir strax en teng­ing­in kem­ur um leið og maður sér mynd­ir, að sögn Önnu Sigrún­ar. „Við sáum að það var allt í góðu með þess­ar upp­lýs­ing­ar og feng­um þá mynd­irn­ar send­ar næst,“ seg­ir Anna Sigrún og út­skýr­ir að um leið og þau sáu mynd­ir voru þetta orðin börn­in þeirra.

Tvíburarnir Óskar Þór og Katrín Þóra hafa aðlagast vel lífinu ...

„Við héld­um að við mynd­um þá fara út seint í mars en nokkr­um dög­um síðar feng­um við annað sím­tal þar sem okk­ur var tjáð að við mætt­um fara út og hitta þau 21. fe­brú­ar.“

Rosa­lega skrít­in til­finn­ing

Þau héldu af stað til Tékk­lands og þurftu að skila þar inn gögn­um til viðeig­andi yf­ir­valda og hinn 20. fe­brú­ar fóru þau að skoða bygg­ing­una þar sem barna­heim­ilið var. „Við stóðum þar lengi fyr­ir utan og það var rosa­lega erfitt að vita af þeim þarna inni og geta ekki hitt þau. Teng­ing­in kem­ur ein­hvern veg­inn strax, við vor­um búin að fá send­ar fleiri mynd­ir og höfðum náð að senda þeim pakka sem inni­hélt líka mynd­ir af okk­ur. Þau voru búin að ná að sofa með mynd­irn­ar af okk­ur í nokkra daga. Dag­inn eft­ir kom­um við á barna­heim­ilið og þurft­um að byrja á að fara á fund fyrst. Það var dá­lítið erfitt að bíða.“

Get­urðu lýst því þegar þið sáuð börn­in fyrst?
„Þau voru inni í einu her­bergi og ein fóstra með þeim og hún fór strax fram. Við kom­um inn og sál­fræðing­ur barna­heim­il­is­ins með. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þess­ari til­finn­ingu! Þeir sem hafa ætt­leitt og líka eign­ast barn nátt­úru­lega segja flest­ir þetta vera sömu til­finn­ingu. Aðstæðurn­ar eru bara ólík­ar. Þetta er rosa­lega skrítið, líka af því að við erum búin að vera að bíða eft­ir þeim, og síðustu vik­ur eft­ir ná­kvæm­lega þess­um börn­um. En þau vita ekk­ert hver við erum. Þannig að við þurft­um að færa okk­ur ró­lega að þeim. Gáf­um þeim dót sem þeim fannst spenn­andi. Ég hugsa að það hafi liðið tíu mín­út­ur, þá voru þau kom­in í fangið á okk­ur.“

Og fannst þér strax að þetta væru börn­in þín? „Já, það er bara svo­leiðis,“ seg­ir hún og bros­ir. „Okk­ur báðum. Og það var hræðilegt að fara og skilja þau eft­ir þegar þau þurftu að fara að leggja sig. En þau voru í aðlög­un­ar­ferli og þetta er hugsað mikið út frá börn­un­um. Þau höfðu það gott þar sem þau voru. Við vor­um þarna í fjóra daga en á fjórða degi fengu þau að koma með okk­ur en við leigðum íbúð í þess­um bæ. Þá vor­um við búin að prófa að gefa þeim að borða, fara með þeim út og baða þau en þau voru sápu­böðuð á hverj­um ein­asta degi,“ seg­ir hún og hlær. „Það er kannski ekki al­veg svona strangt leng­ur.“ 
Var eng­in hræðsla, hugsuðuð þið ekk­ert: Hvað erum við að koma okk­ur út í?
„Jú, jú, guð minn al­mátt­ug­ur, það er ennþá! Við erum með tveggja ára tví­bura!“ seg­ir hún og skelli­hlær. „Sem bet­ur fer eru þau bara ynd­is­leg, eins og börn eru. Og það geng­ur al­veg ótrú­lega vel með þau, það er bara svo­leiðis.“

Fjölskyldan býr á Reyðarfirði þar sem foreldrarnir starfa hjá Alcoa.

Þau dvöldu í bæn­um í fjóra daga til viðbót­ar og fengu þá leyfi til að fara til borg­ar­inn­ar þar sem dómsvaldið er og tók þá við nokk­urravikna bið. 
„Það er gert ráð fyr­ir að maður þurfi að vera allt upp í sex vik­ur úti en við vor­um rétt rúm­lega fimm,“ seg­ir hún og komu þau til Íslands í lok mars. Þau dvöldu í Reykja­vík í nokkra daga og fóru svo keyr­andi heim til Reyðarfjarðar. Hún seg­ir það hafa verið til­finn­inga­ríkt og mik­inn létti að koma með þau heim. Ein­hvern veg­inn hafi það verið þá al­veg ör­uggt að þau ættu þessi börn. „Það var dá­sam­legt að koma heim með þau.“
Ferðin heim gekk vel. „Það gekk mjög vel, þau voru eins og al­van­ir ferðalang­ar, sem þau voru alls ekki, það var nán­ast þeirra fyrsta bíl­ferð þarna með okk­ur. Þau höfðu búið á barna­heim­il­inu alla sína ævi,“ seg­ir Anna Sigrún og seg­ist hún vita sög­una á bak við blóðfor­eldra barn­anna. „Það er erfið en fal­leg saga. Mik­il vænt­umþykja. Aðstæðurn­ar voru bara erfiðar.“

Hún er al­gjör par­tí­bomba

Nú eru liðnir fimm mánuðir síðan Anna Sigrún og Gunn­ar Lár­us urðu for­eldr­ar. Börn­in hafa aðlag­ast vel og virðast al­veg hafa gleymt tékk­nesk­unni. Íslensk­an er strax orðin þeirra móður­mál og Katrín Þóra litla bend­ir blaðamanni á fal­leg­ar bux­ur með mynd­um á. „Svona!“ seg­ir hún.

„Í síðustu viku prófaði ég að segja tékk­nesku nöfn þeirra, en það voru eng­in viðbrögð, en við byrjuðum strax að kalla þau ís­lensku nöfn­un­um. Þau virðast hafa gleymt tungu­mál­inu,“ seg­ir Anna Sigrún. 
„Það hef­ur mest komið á óvart hvað þetta hef­ur gengið vel. Þau sofa vel og eru mikið rútínu­fólk. Þau eru bæði mjög ákveðin. Hann þarfn­ast okk­ar meira en hún. Hann held­ur sig aðeins til hlés í fjöl­menni en finnst gam­an að búa til hávaða. Hún er al­gjör par­tí­bomba, vill hafa at­hygli fólks á sér. Henni finnst það mjög skemmti­legt en kem­ur alltaf til okk­ar að fá mömmu- eða pabba­knús á milli.“

Það má spyrja mig

Anna Sigrún seg­ist ánægð með Íslenska ætt­leiðingu. „Mín upp­lif­un var mjög góð. Þetta er fé­lagið okk­ar og þess vegna ætl­um við að hlaupa tíu kíló­metra fyr­ir þau, í annað skipti. Það er rosa­lega margt sem maður þarf að fara í gegn­um, papp­írs­vinna og fleira. Þetta er mjög mik­il­vægt fé­lag. Og ég vil minna fólk á að þetta er ein leið til þess að eign­ast barn. Ekki síðasti val­kost­ur­inn eins og svo marg­ir halda. Marg­ir hafa sagt við mig að þeir héldu að maður yrði að prófa allt annað fyrst. Það er fullt af fólki sem er að hug­leiða þetta og held­ur að þetta sé flókn­ara en það er. Þetta er ekk­ert rosa­lega flókið. Biðin er senni­lega leiðin­leg­ust en okk­ur fannst allt ferlið spenn­andi og fór­um já­kvætt út í þetta. Ég mæli með að fólk sem er að skoða þetta fari á nám­skeið hjá ÍÆ og eft­ir það veistu al­veg hvort þetta er leiðin fyr­ir þig,“ seg­ir hún.
„Bara það að hafa sam­band við fé­lagið er stórt skref og kannski vill fólk vita ým­is­legt án þess að stíga það skref og það má al­veg spyrja mig. Ég sagði öll­um strax að við vær­um í þessu ferli og all­ir vissu af þessu. Við vilj­um að fólk geti spurt okk­ur og fengið hrein­skil­in svör,“ seg­ir Anna Sigrún sem vill gjarn­an deila reynslu sinni með öðrum í svipuðum hug­leiðing­um. Íslensk ætt­leiðing er svo fé­lagið sem sér um að láta draum­inn ræt­ast. „Við vær­um ekki fjöl­skylda ef það væri ekki fyr­ir þau.“

Gunn­ar Lár­us og Anna Sigrún urðu fjög­urra manna fjöl­skylda í vor þegar þau fengu í fangið tveggja ára tví­bura frá Tékklandi, Óskar Þór og Katrínu Þóru. Ásdís Ásgeirs­dótt­ir

Morgunblaðið - Er þetta símtalið?

 


Svæði