Fréttir

Morgunblaðið - Hvers vegna ert þú hvít og mamma þín líka hvít?

Eftir Skapta Hallgrímsson
skapti@mbl.is

Ættleiðing barna er fyrir löngu hætt að vera feluleikur – sem betur fer
BÖRNUM sem ættleidd eru til Íslands hefur fækkað undanfarið og líklega verða þau innan við 20 á þessu ári, en nú eru á biðlista hérlendis um 120 fjölskyldur sem hlotið hafa forsamþykki til ættleiðinga.
  Sigrún María Kristinsdóttir, blaðamaður og verðandi móðir, hefur skrifað bók um ættleiðingar og spjallar þar við fólk sem hefur verið ættleitt, foreldra þeirra, fagfólk og fleiri.

Margt hefur breyst
Fyrsta bókin sem kom út um málefnið hérlendis er frá 1964 og var aðallega ætluð fagfólki að sögn Sigrúnar Maríu. „Þar var mest fjallað um fátækar mæður sem urðu að gefa börnin sín en nú er staðan allt önnur. Þegar við hjónin fórum út í ættleiðingarferli vildi ég lesa mér til en komst að því að nánast ekkert lesmál er til á íslensku um þetta,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.
  Margt hefur breyst undanfarna áratugi eins og gefur að skilja. „Bæði er þjóðfélagsandinn allt annar, en það gerðist líka, að þegar fólk fór að ættleiða börn af öðrum kynstofnum var ekki hægt að fela ættleiðinguna. Þá datt engum það lengur í hug.“ Breyting sé jákvæð því feluleikurinn hafi ekki verið neinum til góðs.
  Sigrún María segir það hafa verið ofboðslega skemmtilega vinnu að skrifa bókina. „Ég er enginn sérfræðingur í ættleiðingum en talaði við marga og meginskilaboðin eru þau að kjörfjölskyldur eru bara venjulegar fjölskyldur; það segja allir í fjölskyldunni. Börn eru fyrst og fremst börn, hvort sem þau eru ættleidd eða ekki.“
  Í bókinni ræðir Sigrún María við ríflega 30 manns; fólk sem hefur verið ættleitt, foreldra uppkominna ættleiddra barna, fólk sem bíður eftir að fá barn, afa og ömmur ættleiddra barna og ýmsa sérfræðinga.
  Hún segir feluleik í tengslum við ættleiðingar oft hafa gert fólki erfitt fyrir. „Það er erfitt fyrir ungling að spyrja foreldra sína hvort hann sé ættleiddur, eins og hann hafi heyrt úti á götu.“ Og vissulega hafi verið áhugavert að heyra frásagnir unglinga í dag, hvaða spurninga þeir fái og ekki síst hverju þeir svari. Hún nefnir dæmi af stúlku sem var spurð hvers vegna hún væri brún en mamma hennar hvít. Hún svaraði að bragði: „Hvers vegna ert þú hvít og mamma þín hvít?“

Í HNOTSKURN
>> Óskabörn eftir Sigrúnu Maríu er sú fyrsta um ættleiðingar sem út kemur á Íslandi í 45 ár. 

>> Fjallað er um umsóknir foreldra, ferðir út til að sækja börnin, þroska barnanna, uppeldi og fleira. 

>> Meðal þeirra sem Sigrún María ræðir við eru Gestur Pálsson barnalæknir, Valgerður Baldursdóttir geðlæknir, sálfræðingarnir Gyða Eyjólfsdóttir og Margrét Bárðardóttir, og Þórdís Kristinsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur.

Morgunblaðið - Hvers vegna ert þú hvít og mamma þín líka hvít?

 

 


Svæði