Fréttir

Morgunblaðið - Sífellt færri ættleiðingar milli landa

Forsíða Morgunblaðsins 5.10.2016
Forsíða Morgunblaðsins 5.10.2016

Einungis eitt barn hefur verið ættleitt frá útlöndum hingað til lands það sem af er ári, en þau voru 17 allt árið í fyrra. Kristinn Ingvarsson hjá Íslenskri ættleiðingu, sem hefur milligöngu um ættleiðingar erlendra barna á Íslandi, segir að sífellt færri börn séu ættleidd á milli landa í heiminum. Í heild voru 47 börn ættleidd á Íslandi árið 2015 og 37 börn árið 2014. Af þessum 47 börnum voru 28 ættleidd innan fjölskyldu. Í flestum tilvikum var stjúpfaðir kjörforeldri.
  Tvö börn voru ættleidd á milli fjölskyldna á Íslandi 2015.

Aðeins ein ættleiðing frá útlöndum það sem af er ári
- Ættleiðingum fjölgaði úr 37 í 47 á milli 2014 og 2015 - Langur biðtími
   
Ættleiðingum fjölgaði um tíu og fóru úr 37 í 47 á árunum 2014-2015. Þrátt fyrir þessa aukningu ættleiðinga á milli þessara ára þykir almennt erfiðara að ættleiða barn milli landa nú en fyrir nokkrum árum að sögn Kristins Ingvarssonar, framkvæmdastjóra Íslenskrar ættleiðingar.
  Árið 2015 voru frumættleiðingar, þ.e. ættleiðingar barna frá útlöndum, 17. Það sem af er ári hefur hins vegar einungis ein slík ættleiðing gengið í gegn.
  Ástæðuna segir hann þríþætta. Biðtími eftir forsamþykki hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu hefur lengst úr sex mánuðum í eitt ár á nokkrum árum. Pólitískar aðstæður í "ættleiðingarlöndunum" eins og Kína, Kólumbíu og Indlandi, hafa breyst, m.a. vegna aukinnar hagsældar, auk þess sem lagalegar breytingar hafa orðið í Tékklandi sem tímabundið hefur frestað ferlinu þar í landi.
  Af þeim 47 ættleiðingum sem gengu í gegn árið 2015 voru stjúpættleiðingar 28 en frumættleiðingar 19. Stjúpættleiðingar eiga sér stað innan fjölskyldu en með frumættleiðingum er átt við ættleiðingar utan fjölskyldu.

Ættleiðingum fækkar
"Almennt í heiminum eru færri ættleiðingar í dag en þær voru í gær," segir Kristinn, en Íslensk ættleiðing er eina félagið á Íslandi sem hefur löggildingu stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. "Í fyrra komu 12 börn frá Tékklandi. Þaðan voru 35 börn ættleidd úr landi en ástæða þess að svo mörg börn komu til Íslands er sú að þeir eru ánægðir með Ísland sem ættleiðingarland," segir Kristinn

Viðar Guðjónsson
vidar@mbl.is


Svæði