Fréttir

Morgunblaðið - SKÍNANDI DÓTTIR FRÁ KÍNA

Þórunn og Hrafnhildur Ming. Mynd Golli.
Þórunn og Hrafnhildur Ming. Mynd Golli.



Eftir Steingerði Ólafsdóttur
Ljósmyndir Golli

Ættleiðing er langt og strangt ferli og tók hátt í þrjú ár hjá mæðgunum Þórunni Sveinbjarnardóttur og Hrafnhildi Ming, þrátt fyrir að
þingkonan sé fljót að taka ákvarðanir. Þróunaraðstoð og mannréttindi hafa lengi verið á meðalbaráttumála og hugðarefna Þórunnar og störf hennar fyrir Alþjóða Rauðakrossinn eiga sinn þátt í þeirri ákvörðun hennar að ættleiða barn frá Kína.

Hrafnhildur Ming, sextán mánaða, handleikur stóra kubba, tætir tepoka og rífur í pottablóm eins og hennar aldri sæmir. Mamma hennar, þingkonan Þórunn Sveinbjarnardóttir, fylgist með og grípur inn í þegar pottablómið er farið að þjást óþarflega mikið. "Hún hefur mikið skap og lætur ekki ganga framhjá sér," segir hún og horfir á dóttur sína sem hún fékk fyrst í fangið í Kína fyrir tæpum þremur mánuðum. Þá var lokið ættleiðingarferli sem alls tók tvö ár og níu mánuði.
  Það er ýmislegt sem getur dregið ættleiðingu á langinn, hér á landi og í heimalandi barnanna. Í Kína virðist daglegt brauð að stúlkubörn séu borin út, þar sem karlkynið er rétthærra þar í landi og lög í gildi um að hjón megi bara eignast eitt barn. Þær sem bornar eru út bjargast stundum og fá þá skjól á munaðarleysingjahælum eða barnaheimilum. Auglýst er eftir foreldrum þeirra og ef enginn gefur sig fram er hægt að huga að ættleiðingu.
  Umsókn Þórunnar var send til Kína haustið 2002, um fimmtán mánuðum eftir að hún var samþykkt sem kjörforeldri. Þá var Hrafnhildur nýfædd. Fæðingardagur hennar er skráður 28. ágúst þar sem talið er að hún hafi verið þriggja vikna þegar hún fannst í september 2002, úti á götu í Boyang í Jiangxi-héraði í Kína.
  Þórunn fékk myndir og upplýsingarnar um Hrafnhildi í september á síðasta ári en þá höfðu skýrslurnar um barnið legið fyrir frá í apríl sama ár og hún því tilbúin til ættleiðingar átta mánaða en ekki fjórtán mánaða eins og hún var þegar þær mæðgur hittust loks. Í skýrslunni sem Þórunn fékk í september voru myndir og skýrslur um þroska og heilsu Hrafnhildar. Þessar upplýsingar miðuðust allar við apríl sl. Skýrslur þeirra mæðgna rötuðu svo saman á ættleiðingarskrifstofu sumarið 2003 og svo hittust þær loks hinn 2. nóvember 2003.

Byrjum á núllpunkti Þórunn ákvað fyrir þremur árum að hún vildi ættleiða barn. "Ég var ekki búin að hugsa um þetta lengi þegar ég ákvað að ættleiða. Ég er nú yfirleitt fljót að taka ákvarðanir þegar ég vind mér í þær. Ákvörðunin var sú að eignast barn og síðan varð hún sú að ættleiða barnið. Ég vissi að þetta tæki sinn tíma. En ég hafði þá ráðrúm til þess að hugsa málið og undirbúa mig að því marki sem hægt er. Allt fyrsta árið, ef ekki lengur, var þetta mjög óraunverulegt. Það var ekki fyrr en einu og hálfu ári eftir að ferlið hófst að stóra umsóknin fór til Kína; allt um mig og mína, fjárhagsstöðu og uppruna. Þá vissi ég að það var um það bil ár í að ég myndi eignast barn og það stóð heima. En það er ekkert öruggt fyrr en búið er að ganga frá ættleiðingunni og allir pappírar stimplaðir og frágengnir." 

  Þórunn og Eydís, eldri systir hennar, fóru til Kína í lok október sl. með hópi sem var að fara að ná í alls tíu stelpur á tveimur barnaheimilum í Jiangxi-héraði. Aðlögun var engin þegar börn og foreldrar hittust í fyrsta skipti. "Ég held að það hugtak sé ekki til í Kína," segir Þórunn og kímir. "Okkur var skipt í tvo hópa og sátum í stóru hótelherbergi. Svo var komið með þær, kínverska nafnið þeirra kallað upp og foreldrarnir áttu að gefa sig fram. Ég var að hitta barnið mitt í fyrsta sinn með allt fullt af embættismönnum og fóstrum og barninu leist náttúrulega ekkert á þetta."
  Þær fengu svo dálítinn frið inni á hótelherbergi og síðan kom ein af fóstrunum og gat svarað einhverjum spurningum. "Reyndar fengum við ósköp stuttan tíma til þess. Mér fannst svolítið erfitt að geta ekki setið aðeins lengur með fóstrunum og rætt um barnið en það var ekki boðið upp á það. Við byrjum bara á núllpunkti, hún þarf að kynnast mér og ég henni. En lítil börn eru svo skynsöm, þau uppgötva fljótt hver er alltaf til staðar og gefur þeim að borða og sinnir þeim. Það gengur á ýmsu en mér finnst hún Hrafnhildur hafa verið ótrúlega dugleg. Það sama má segja um hinar stelpurnar sem komu heim í nóvember. Þetta eru flottar og duglegar stelpur." Sumar þeirra halda hluta af kínverska nafninu sínu eins og Hrafnhildur Ming, en kínverska nafnið hennar þýðir björt eða skínandi og er í kínversku táknað með sól og tungli.

Mótmælti kröftuglega fyrstu sólarhringana
Hrafnhildur var þegar búin að taka út heilmikinn þroska og var farin að tileinka sér kínverskuna þótt hún hafi ekki verið farin að segja margt þegar hún var ættleidd. Hrafnhildur og stelpurnar sem eru í sömu sporum og hún, að því leyti að hafa verið yfirgefnar af mæðrum sínum og svo ættleiddar, hafa orðið fyrir tveimur áföllum á stuttri ævi. "Auðvitað er það erfitt fyrir svona lítið barn að sitja skyndilega uppi með einhverja ókunna konu og Hrafnhildur mótmælti kröftuglega fyrstu sólarhringana, fannst þetta ómögulegt. Svo virtist hún ákveða að sætta sig við orð- inn hlut og nú gengur vel."
  Hrafnhildur dettur og fer að gráta þegar hér er komið sögu og mamman stekkur til og huggar. "Þegar hún var nýkomin heyrðist ekki í henni þótt hún dytti kylliflöt. Hún var orðin vön því að vera ekkert að kvarta en nú er hún farin að bregðast eðlilega við. Svo er hún líka búin að læra að kyssa og knúsa og ýmislegt fleira sem gott er að kunna í lífinu," segir Þórunn brosandi. "En það hefur verið vel hugsað um stelpurnar á barnaheimilinu þar sem Hrafnhildur var. Hún kann að leika sér og myndar tengsl og er hraust og þrifaleg. Ákveðnin hefur komið henni vel þar sem lífsbaráttan hefur örugglega verið hörð fyrsta æviárið."
  Líf fólks breytist við að eignast barn, hvort sem það er með ættleiðingu eða öðrum leiðum, eins og Þórunn segir þegar talið beinist að því hvernig lífið hafi breyst með Hrafnhildi Ming. "Ég var búin að venjast því að vera barnlaus en nú er komin ný manneskja í líf mitt og hún hefur forgang. Það er mjög tímabær og gleðileg breyting en auðvitað tekur svolítinn tíma að venjast því."
  Ættleiðingarferlið er lengra fyrir einhleypa en hjón og ekki öll lönd sem leyfa ættleiðingar þarlendra barna til einhleypra. "Ég fann að sumir af þessum embættismönnum áttu erfitt með að láta það ríma að ég væri einstæð móðir og stjórnmálamaður. Ég þótti því frekar skrýtin."

"Baraðferðin" hentar ekki
Það þykir enn frekar sérstakt hér á landi að einhleyp kona ættleiði barn þótt það þyki sjálfsagt til að mynda í Bandaríkjunum og víðar. Vinum Þórunnar í útlöndum fannst þetta fulllkomlega eðlileg ákvörðun og spurðu ekki sömu nærgöngulu spurninganna og sumir Íslendingar hafa gert. "Fyrir einhverjar konur skiptir það miklu máli að ganga með og fæða barnið sitt. Ég er bara ekki þannig gerð og það vegur ekki þungt hjá mér. Ég varð vör við það framan af, þegar ég var farin að segja fólki frá þessu, að þótt allir væru mjög glaðir fyrir mína hönd voru sumir samt dálítið hissa á því að ég skyldi velja þessa leið. Kannski sérstaklega á Íslandi því Íslendingar hafa nú löngum notað gömlu "baraðferðina" við að eignast börn, þ.e.a.s. með ókunnugu fólki. Það er ekki aðferð sem hentar mér."
  Þórunn var 35 ára þegar hún ákvað að hún vildi eignast barn. "Það hefur aldrei verið neitt markmið í mínu lífi að verða einstæð móðir, nema síður sé, en auðvitað kemur að því að maður horfist í augu við það hvort maður ætlar að eignast barn eða ekki. Örlögin hafa hagað því þannig að ég geri það ein. Ef aðstæður væru með einhverjum öðrum hætti hefði niðurstaðan líklega orðið sú sama." 

  Að mati Þórunnar ætti fólk sem á í vandræðum með að eignast barn að íhuga ættleiðingu fyrr en nú er raunin. "Ætli fólk á annað borð að eignast barn eða börn er ættleiðing kostur sem allir ættu að velta fyrir sér. Flestir sem eiga við barnleysi að stríða virðast tilbúnir til að leggja mjög mikið á sig andlega og líkamlega til að eignast barnið sitt, til dæmis að fara í glasafrjóvganir. En svo virðist ættleiðingin ekki eins nærtæk. Því er stundum allt annað fullreynt þegar fólk fer að hugleiða ættleiðingu sem alvörukost. Ættleiðing tekur sinn tíma og henni fylgir mikil skriffinnska. Fólk verður því að vera tilbúið að opna einkalíf sitt fyrir félagsráðgjöfum, barnaverndarnefndum og ráðuneyti dómsmála og færa ítarleg rök fyrir ósk sinni og því að maður geti talist gjaldgengt foreldri. Ef maður er tilbúinn til þess er það algjörlega fyrirhafnarinnar virði."

Eftir allt saman bara einn heimur
Það gerist varla lengur að börn sem fæðast á Íslandi séu ættleidd. "En áður fyrr voru börn borin út á Íslandi eins og þau eru borin út í Kína núna, eða fjölskyldur leystar upp vegna fátæktar. Um allan heim eru börn sem vantar foreldra en lífið er ekki það einfalt að það sé hægt að para þau öll saman við foreldra í fjarlægum löndum. Eins og kemur svo berlega í ljós í ættleiðingarferlinu, þá er hin endanlega ákvörðun í höndunum á yfirvöldum þess lands sem barnið er frá. Og það land, í mínu tilfelli Kína, setur sínar reglur og sín skilyrði. Það er ekki sjálfsagt að leyfa ættleiðingar til útlanda og oft spurning um þjóðarstolt. Í ýmsum löndum eru ættleiðingar til útlanda ekki leyfðar af því að yfirvöld vilja ekki að börnin fari annað. Ég get að mörgu leyti skilið það en ef maður hugsar fyrst og fremst um velferð barnanna á ekki að skipta neinu máli hvar þau lenda, í upprunalandi sínu eða einhverju öðru."
  Þórunn hefur starfað fyrir Alþjóða Rauða krossinn í þróunarlöndunum og kynnst bágum kjörum, bæði flóttafólks og almennra borgara. "Oft eru börn ekki munaðarlaus í eiginlegum skilningi orðsins, heldur hafa þau verið yfirgefin, stundum á flótta eða hreinlega vegna þess að þau eru þroskaheft eða fötluð. Reynsla mín af störfum fyrir Rauða krossinn hefur eflaust haft þau áhrif á mig að mér þótti það mjög nærtækt að fara þessa leið. Þetta er eftir allt saman bara einn heimur."
  Þórunn ákvað að ættleiða frá Kína af því að einhleypum er leyft að ættleiða þaðan. Hún er ekkert farin að spá í hvort hana langar í annað barn. "Við höfum nóg að gera saman við Hrafnhildur Ming og þessa stundina finnst mér það mjög fjarlægur möguleiki. Ég er líka ein með hana og auk þess í krefjandi og erilsömu starfi," segir þingkonan sem sest aftur á Alþingi eftir fæðingarorlof í apríl. Ekki er komið í ljós hvort Hrafnhildur verður komin með leikskólapláss eða dagvist þegar þar að kemur en Þórunn er farin að leggja drög að því. "Hún hefði mjög gott af því að fá að vera innan um önnur börn upp á málþroskann og félagsþroskann. En ég fæ líka mikla aðstoð frá fjölskyldunni, vinum og vandamönnum. Ég hefði ekki lagt út í þetta ef ég hefði ekki vitað að ég ætti þann stuðning vísan."

Ríkið ætti að styrkja hvort tveggja eða hvorugt
Ættleiðing er langt og strangt ferli og dýrt að auki. "Það er nokkuð rætt í þessum hópi fólks sem ættleitt hefur börn, hversu undarlegt það er að Ísland skuli vera eina landið á Norðurlöndunum sem styrkir ekki foreldra sem fara og ættleiða börn frá útlöndum. Sum stéttarfélög veita reyndar einhverja styrki en hjá hinum Norðurlandaþjóðunum fær fólk ferðastyrki frá hinu opinbera. Þetta er einfaldlega spurning um jafnræði og réttlæti. Ríkið niðurgreiðir glasafrjóvganir og ætti því að styrkja þessa tegund barneigna líka, ellegar styrkja hvorugt, ekki satt? Auk þess sem ættleiðing á ekki frekar en annað sem lýtur að barneignum að vera háð efnahag fólks en eins og staðan er núna er ýmislegt sem bendir til þess. Fólk þarf að hafa sæmilegar og stöðugar tekjur til að kljúfa þetta. Sumir gera það reyndar með lántökum en fyrir ríkissjóð eru þetta engar upphæðir."
  Þórunn beitti sér ekki sérstaklega í starfi sínu sem þingkona fyrir réttindum þeirra sem ættleiða börn á meðan hún sjálf var í ferlinu, en hyggst gera það í framtíðinni. "Guðrún Ögmundsdóttir hefur lagt fram tillögu um að ríkið taki þátt í kostnaði og málið er í athugun. Ég vona að þingið taki skynsamlega á því."
  En réttarstaða fólks er líka mismunandi hvað varðar ættleiðingar. Stutt er síðan einhleypir fengu rétt til að ættleiða börn en samkynhneigð pör hafa ekki enn þennan rétt. "Ég hef aldrei skilið hvers vegna ættleiðingarrétturinn var skilinn eftir þegar réttindi samkynhneigðra voru bætt til muna um árið. En við verðum samt að gera okkur grein fyrir því að mörg lönd myndu ekki leyfa ættleiðingar samkynhneigðra. Kína leyfir þær til dæmis ekki. Þar lítur hið opinbera á samkynhneigð sem sérvisku í útlendingum, en það er önnur saga. Þess vegna má heldur ekki skapa óraunhæfar væntingar fólks hér heima. En ef við viljum vera samkvæm sjálfum okkur og veita öllu fólki jöfn réttindi og full mannréttindi eigum við auðvitað að breyta lögunum."
  Íslensk ættleiðing hefur milligöngu um ættleiðingar til íslenskra foreldra. "Félagið er lítið en þar er unnið þrekvirki alla daga við viðkvæmar og oft erfiðar aðstæður. En það þarf að styrkja félagið enn betur. Sérstaklega núna eftir að Kína opnaðist og áhugi á ættleiðingum er greinilega að aukast. Á síðasta ári komu 22 börn frá Kína og í kringum hvert einasta barn er heilmikil vinna, skriffinnska og í mjög mörg horn að líta. Helst af öllu vildi ég að hægt væri að stytta og einfalda ferlið með einhverju móti. Félaginu eru lagðar miklar skyldur á herðar og það þarf því að hafa bæði fjármagn og aðstæður til að inna þær af hendi." Eydís, systir Þórunnar, sem fór með henni til Kína, er geðhjúkrunarfræðingur og það kom sér mjög vel að hafa heilbrigðisstarfsmann með í för. "Það kom sér býsna vel bæði fyrir fullorðna og börn. Álagið er gífurlegt í svona ferð, bæði andlegt og líkamlegt. Bara það að vera nýbúinn að eignast barnið sitt en fá svo í magann eða einhverja pest getur sett allt á annan endann. Sérþekking systur minnar kom því að góðum notum fyrir hópinn."
  Margt getur komið á óvart og heilsufar barnanna er eitt af því. "Mér finnst mestu skipta að foreldrar sem eru að ættleiða geri sér grein fyrir því að allt getur gerst. Hins vegar er þessi meðganga allt öðruvísi en venjuleg meðganga að því leyti að barnið er fætt og við fáum um það upplýsingar, ekki síst heilsufarsupplýsingar sem eiga að vera veittar eftir bestu vitund. Þegar ég fékk upplýsingarnar um Hrafnhildi Ming í september fékk ég tvær myndir af henni, læknaskýrslu og skýrslu um færni hennar sem sýndu mér að hún væri í mjög góðum málum. Þess vegna átti ég ekki von á öðru en að hitta heilbrigt barn, sem ég og gerði. Fyrst og fremst þurfa foreldrar að fá aðstoð við að komast til botns í því hvað er að ef börnin eru lasin eða veikburða. Börn sem eru alin upp við rýran kost á barnaheimilum eru flest hver langt frá því að vera eftir íslenskum stöðlum og kúrfum. Oft eiga þau við vannæringu að stríða og af henni getur svo ýmislegt annað leitt. En svo sér maður að um leið og þau eru komin í hendurnar á foreldrum sínum og farin að fá örvunina og athyglina sem þau þarfnast og borða sæmilega, þá braggast þau svo ótrúlega vel. Litlar píslir verða að stórum og búlduleitum börnum á nokkrum mánuðum. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir að börnin okkar koma úr óvenjulegum aðstæðum og þeim getur ýmislegt fylgt sem maður á ekkert endilega von á."

Barnafjölskyldur búa við mikið álag
Mæðgurnar una sér vel í Garðabænum og eru að fara út að leika í snjónum. Hvað sér Þórunn fyrir sér um framtíð Hrafnhildar Ming? "Ekki neitt," segir Þórunn og skellihlær. "Nema það að hún dafni, verði hraust og glöð og ánægð með lífið. Hún elst upp í íslensku samfélagi og svo kemur bara í ljós hvernig það leggst í hana. Það eru engin plön hér um eitt eða neitt."
  Þórunn hefur nú það verkefni að ala upp stelpu en hún hefur löngum beitt sér fyrir jafnrétti kynjanna. "Já, Hrafnhildur, heldurðu að það verði komið launajafnrétti þegar þú verður stór?" spyr hún dóttur sína brosandi en Hrafnhildur lætur sér fátt um finnast og heldur áfram að tæta pottablómið. "Það hvarflar ekki að mér að hún fái færri tækifæri en drengirnir en svo veit maður aldrei. Líklega kemur það í ljós þegar þessar litlu stelpur fara út á vinnumarkaðinn. Við höfum enn ráðrúm til þess að bæta stöðu þeirra."
  En hvernig finnst Þórunni búið að börnum á Íslandi? "Ég hef lengi haft miklar skoðanir á því og það hefur ekki breyst við að verða móðir. Mér sýnist að börn og barnafjölskyldur búi almennt við mikið álag vegna mikillar vinnu. Streitan og yfirgengileg efnishyggja smitar yfir í barnauppeldið í ýmsum myndum. Að þau verði að eignast alla skapaða hluti og að hamingjan sé fólgin í endalausu dóti og glingri. Fólk verður náttúrulega að velja hvernig það vill ala börnin sín upp en þau virðast oft ansi hart keyrð þessar elskur, ég tala nú ekki um þegar þau eru komin í skóla og farin að stunda öll þessi aukaprógrömm sem fólk vill veita börnunum sínum. Stundum held ég að þau fái lítinn tíma bara til að vera til án þess að það sé einhver dagskrá í gangi. Tómstundir eru öfugmæli á Íslandi, hér eru stundir aldrei tómar, það þarf alltaf eitthvað að vera að gerast. Sem kona í krefjandi starfi geri ég mér grein fyrir að það verður ekki alltaf einfalt að púsla þessu saman fyrir mig og hana. En maður velur, leggur ákveðna hluti til hliðar og einbeitir sér að færri atriðum. Ég býst við að allir foreldrar standi frammi fyrir sama valinu í þessu efni," segir Þórunn að lokum.

Morgunblaðið - SKÍNANDI DÓTTIR FRÁ KÍNA


Svæði