Fréttir

Nordic Adoption Joy week

Þessa vikuna fagnar Íslensk ættleiðing norrænni ættleiðingarviku, en ættleiðingarfélögin á norðurlöndunum hafa sammælst að fagna ættleiðingum sérstaklega þessa vikuna. 

Í þessari viku hafa samstarfsfélög Íslenskrar ættleiðingar sett brennidepilinn á jákvæða umræðu um ættleiðingar og ættleiðingartengd málefni. Ættleiðingum í heiminum hefur fækkað mikið og hefur fjöldi umsækjenda dregist stórkostlega saman á norðurlöndunum. Með þessu hefur rekstrargrundvöllur ættleiðingarfélaganna farið versnandi þar sem rekstrargrundvöllur byggir á gjöldum sem byggja á fjölda umsækjenda og fjölda ættleiðinga.

Þetta rekstrar fyrirkomulag á ekki við á Íslandi, þar sem félagið og dómsmálaráðuneytið hefur gert með sér þjónustusamning um þjónustu sem skilgreind er í ættleiðingarlögum, reglugerðum, Haagsamningnum um vernd barna og samvinnu um ættleiðingar milli landa, Barnasáttmálanum og siðareglum NAC og EurAdopt. 
Það var mikið þrekvirki þegar fyrsti þjónustusamningur ráðuneytisins og félagsins var undirritaður árið 2012. Með því breyttist málaflokkurinn úr því að vera rekinn áfram af fjölda umsækjenda og fjölda ættleiðinga yfir í að hægt sé að setja brennidepilinn á fræðslu, ráðgjöf og stuðning við þá sem eru í ættleiðingarferlinum.
Þessi leið er nú kölluð The Icelandic Adoption Model, af samstarfsaðilum félagsins og er mikill áhugi á því að taka Ísland sér til fyrirmyndar við framþróun málaflokksins. Nú í febrúar voru fulltrúar danska miðstjórnvaldsins í heimsókn hjá því íslenska að kynna sér módelið. Framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar var fenginn til að kynna starf félagsins fyrir dönunum og þótti margt í starfinu vera til fyrirmyndar.

Það fjármagn sem fylgir þjónustusamningnum dugar ekki til að standa við allar þær skuldbindingar sem fylgja því að vera þátttakandi í alþjóðlegum ættleiðingum. En félagið er í viðræðum við ráðuneytið að endurmeta, kostnaðargreina, bæta reglugerð og treysta rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar.

Þetta eru jákvæðu skilaboð dagsins í boði #Adoptionjoy


Svæði