Fréttir

Nýráðinn framkvæmdastjóri

Kristinn Ingvarsson
Kristinn Ingvarsson

Kristinn Ingvarsson nýráðinn framkvæmdarstjóri Íslenskrar ættleiðingar er fæddur 1971 í Reykjavík.

Hann sleit barnsskónum í Breiðholtinu en flutti til Hafnarfjarðar og útskrifaðist úr Flensborgarskólanum með stúdentspróf af sálfræðibraut. Kristinn fékk MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2009.

Kristinn hefur um langt skeið starfað í málefnum fatlaðra og nú síðast um tíu ára skeið sem deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg. Þar stýrði hann Sérsveitinni, sem sér um félagsstarf fyrir fötluð ungmenni í Reykjavík og nágrenni. Frístundaheimili fatlaðra skólabarna voru einnig á forræði Kristins.

Í starfi sínu fyrir Reykjavíkurborg öðlaðist Kristinn góða reynslu af ráðgjöf, sérstaklega fyrir foreldra, auk þess sem starfið fól í sér veruleg erlend samskipti við stofnanir með sambærilega þjónustu í Evrópu og Bandaríkjunum.

Kynni Kristins af ættleiðingarmálum hófust árið 2006 þegar hann og kona hans hófu forsamþykkisferli hjá sýslumanninum í Búðardal. Nú eru þau hjón í biðinni löngu, þau eru í hópi 26 til Kína.

Síðastliðið ár hefur Kristinn öðlast meiri reynslu af ættleiðingarmálum, en hann er einn ellefu einstaklinga sem stóðu að stofnun félagsins Alþjóðleg ættleiðing. Hann hefur allt frá stofnun félagsins séð um daglegan rekstur þess, þar með talin samskipti við ráðuneyti og sýslumann, félagsmenn og umsækjendur, auk þess sem hann hefur tekið þátt í öflun sambanda við erlend ríki. Þá hefur hann verið fulltrúi Íslenskrar ættleiðingar í stjórn NAC, og setið í hagsmunanefnd Foreldrafélags ættleiddra barna frá síðastliðnu vori.
 
Kristinn er kvæntur Birnu Ósk Einarsdóttur, forstöðumanni hjá Símanum og á einn stjúpson frá fyrri sambúð, Svein Magnús.


Svæði