Fréttir

Ráðstefna EurAdopt í Kaupmannahöfn

Ráðstefna EurAdopt var haldin í Kaupmannahöfn dagana 1.-2.september. Starfsfólk Íslenskrar ættleiðingar fór á ráðstefnuna en fjallað var um framtíð ættleiðinga milli landa frá ýmsum sjónarhornum. Fjöldi fyrirlesara tóku þátt, t.d fulltrúi frá Haag, miðstjórnvöld, fulltrúar frá upprunaríkjum, rannsakendur og uppkomnir ættleiddir.

Fyrri daginn voru fyrirlestrar um mat á alþjóðlegri ættleiðingu sem barnaverndarúrræði, hvaða áskoranir eru til staðar og hvernig er hægt að tryggja að unnið sé út frá hag barns. Alþjóðleg ættleiðing getur verið ein leið fyrir barn til að eignast fjölskyldu en bera þarf virðingu fyrir uppruna barnsins og tryggja að sjálfsmynd barnsins haldist.

Seinni daginn voru fyrirlestrar um þróun alþjóðlegra ættleiðingar 1990-2020, samstarf innan málaflokksins og hver okkar siðferðislega ábyrgð sé til þess að tryggja að rétt sé staðið að ættleiðingunni. Samstarf á milli upprunalands og móttkökulands þarf að vera traust og að unnið sé að sama markmiðinu sem er að hugsa um hvað sé best fyrir barn.

Mikil áhersla var á mikilvægi á þjónustu eftir ættleiðingu, Post Adoption Service, en í gæðahandbók Haag stofnunarinnar er vísað til þess að ættleiðing er ekki einn einstakur atburður sem lýkur eftir að ættleiðing fer fram heldur er um lífslangt ferli einstaklings að ræða. Starfsfólk Íslenskrar ættleiðingar hefur unnið að því í gegnum árin að bæta þá þjónustu og stuðning sem umsækjendur, kjörforeldrar, ættleidd börn og uppkomnir ættleiddir þurfa á mismunandi æviskeiðum, en alltaf má gera betur.  Sjónarmið uppkomina ættleidda komu fram á ráðstefnunni, en það er mikilvægt að þau fái að taka þátt í þeirri þróun sem á sér stað þar sem þau hafa upplifað þessa hluti sjálf.

 


Svæði