Fréttir

Rannsókn á líðan og stuðningi

Heiða Hraunberg Þorleifsdóttir
Heiða Hraunberg Þorleifsdóttir

Í september hefst rannsóknin „Viðbrögð, líðan og stuðningur kjörforeldra á Íslandi í kjölfar ættleiðingar barna erlendis frá“.

Rannsóknin er gerð á vegum félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og er lokaverkefni Heiðu Hraunberg Þorleifsdóttur til meistaragráðu til starfsréttinda í félagsráðgjöf en Heiða Hraunberg er einnig kjörmóðir.

Markmið rannsóknarinnar er að fá upplýsingar um sálfélagslega líðan kjörforeldra á Íslandi í kjölfar ættleiðingar barna erlendis frá með höfuðáherslu á depurðar- og þunglyndiseinkenni. Slík einkenni hafa í mörgum rannsóknum verið skilgreind sem ættleiðingarþunglyndi og er hér ætlunin að kanna tíðni, eðli og viðbrögð við einkennunum.

Ætlunin er meðal annars að bera saman niðurstöður við sambærilegar rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis og fá þannig betri yfirsýn yfir tíðni og eðli hér á Íslandi. Annað markmið er að kanna hvers konar aðstoð þátttakendur leita eftir vegna vanlíðunar og hvernig þeir skilgreina þörf sína fyrir þjónustu fagaðila/annarra hvað varðar stuðning eftir ættleiðingu og hversu aðgengilega þeir telja hana vera.

Íslensk ættleiðing mun senda út spurningalista rannsóknarinnar ásamt kynnisbréfi rannsakanda í tölvupósti til þeirra kjörforeldra sem ættleitt hafa börn erlendis frá með milligöngu félagsins Íslensk ættleiðing á árunum á 2007-2012.


Svæði