Fréttir

Rannsókn á reynslu foreldra ættleiddra barna

Í bæði þessari viku og í þeirri síðustu tók starfsfólk ÍÆ á móti nemendum í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ, samtals tæplega 30 nemum. Það er félaginu dýrmætt að geta miðlað upplýsingum um starfsemi félagsins og almennt um ættleiðingar til nemanna en allir vinna þeir verkefni tengdu ættleiðingum og völdu sér stað til að heimsækja. Ein þeirra, Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir, er einnig að vinna að BA ritgerð um reynslu foreldra af ættleiðingu barns erlendis frá en sjálf var hún ættleidd frá Kína árið 2003. Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á þær kröfur og væntingar sem gerðar eru til foreldra ættleiddra barna, sem og um samfélagslega orðræðu foreldrahlutverkisins í nútímasamfélagi. Um verður að ræða u.þ.b. klukkustundarlangt einstaklingsviðtal og stefnir Hjördís á að taka viðtölin á næstu vikum. 

    

,,Um er að ræða lokaverkefnið Reynsla foreldra af ættleiðingu barns erlendis frá framkvæmt frá deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands. Dr. Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir aðjúnkt við menntavísindasvið ber ábyrgð á verkefninu, en tilgangur hennar er að varpa ljósi á þær kröfur og væntingar sem gerðar eru til foreldra ættleiddra barna, sem og þær samfélagslegu orðræður um foreldrahlutverkið í nútímasamfélagi. Mikilvægt er að rýna í upplifun og reynslu foreldra sem hafa ættleitt barn erlendis frá þar sem skortur hefur verið á rannsóknum á þessu sviði hér á landi. Fyrir þátttakanda felst gagnsemin í
því að fá tækifæri til að koma reynslu sinni á framfæri og þá sérstaklega upplifun sinni á ættleiðingarferlinu og einnig þeim kröfum og væntingum sem felast í því," segir í upplýsingablaði um rannsóknina.

Eina skilyrðið sem viðmælendur þurfa að uppfylla er að 20 ár eða styttra sé frá því að viðkomandi hafi ættleitt barn erlendis frá. Áhugasömum er bent á að hafa beint samband við Hjördísi Láru með að senda henni tölvupóst á netfangið hld3@hi.is


Svæði