Fréttir

RÚV - Ættleiðingalög endurskoðuð

Innanríkisráðherra segir að ættleiðingalögin verði endurskoðuð og lofar úrbótum í málaflokknum. Formaður Íslenskrar ættleiðingar er sammála því að færa hæfnismat úr höndum banraverndanefnda eins og lagt er til í nýrri skýrslu um ættleiðingar.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir að nú verði ráðist í að endurskoða ættleiðingalögin og endurskipuleggja stjórnsýsluna með hliðsjón af nýrri skýrslu um ættleiðingar.

Hörður Svavarsson, formaður Íslenskrar ættleiðingar fagnar skýrslunni og segir tíma til kominn að ráðast í betrumbætur.

Kröfur um fagleg vinnubrögð við ættleiðingar barna milli landa verða sífellt háværari. Þeim fjölgar sem vilja ættleiða en færri börn þurfa á því að halda.  Hefna Friðriksdóttir, dósents í sifja- og erfðarétti, kynnti í morgun skýrslu sína um ættleiðingar og krefisbreytingar sem hún leggur þar til.

Hörður Svavarsson segist sammála Hrefnu um margt en enn eigi eftir að slípa nokkra þætti. Hann segir Íslenska ættleiðingu hafa óskað eftir því að útgáfa forsamþykkis verði miðlæg og matið verði miðlægt. Hann tekur undir með Hrefnu um það að einstakar litlar barnaverndanefndir hafi ekki tækifæri til að sérhæfa sig á þessu sviði og að á höfuðborgarsvæðinu séu verkefnin svo mörg að hæfnismat sitji iðulega á hakanum.

Á fundinum sagði Hörður að stjórnvöld hefðu lengi daufheyrst við óskum þeirra sem starfað hafa að ættleiðingamálum hér á landi. Ættleiðingar snúist um réttindi barna og miklar kröfur séu gerðar um að vel sé staðið að verki. Verkefnin séu mörg og það kosti tíma og peninga, bæði fyrir ættleiðingafélagið og stjórnsýsluna. Íslensk ættleiðing hefur ítrekað óskað eftir því að stjórnsýslan verði efld, segir Hörður. 

Ögmundur Jónasson lofar úrbótum. Hann segir ráðuneytið undirbúa endurskoðun á ættleiðingalögunum og að margir verði kallaðir til samstarfs, svo sem fræðimenn og samtökin Íslensk ættleiðing. Fyrst og fremst þarfnist þó stjórnsýslan endurskipulagningar.  


Svæði