Fréttir

Sendinefnd frá Tékklandi

Daganna 3.-5. mars heimsótti sendinefnd tékkneska miðstjórnvaldsins Íslenska ættleiðingu. Heimsóknin hófst með fundi sendinefndarinnar með starfsmönnum félagsins á skrifstofunni. Fundurinn var fróðlegur fyrir báða aðila en þar var farið yfir helstu breytingar sem hafa orðið síðan sendinefnd Íslenskrar ættleiðingar heimsótti Tékkland síðastliðið sumar.
Að fundinum loknum var leikskólinn Hof heimsóttur. Á leikskólanum er drengur sem er ættleiddur frá Tékklandi og var markmiðið með heimsókninni að gefa miðstjórnvaldinu innsýn í leikskólastarf á Íslandi. Þær voru heillaðar af starfinu og þótti mikið til um metnaðarfullt faglegt starf sem fram fer á Hofi.
Að heimsókninni í leikskólanum lokinni var heimili Birkis Jan heimsótt en hann er ættleiddur frá Tékklandi. Foreldrar Birkis eru Elísabet Hrund Salvarsdóttir og Smári Hrólfsson. Þau voru búin að útbúa heilmikla smakkveislu fyrir sendinefndina. Þær fengu að smakka reykta Klausturbleikju, sauðakjöt, malt og appelsín, flatkökur, harðfisk og hárkarl. Líkaði þeim vel við velgjörina og gerðu henni góð skil.

Á miðvikudag var fundað með íslenska miðstjórnvaldinu (Innanríkisráðuneytinu) og fulltrúum sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Fundurinn var ákaflega jákvæður og voru fulltrúar tékknesku sendinefndarinnar ánægðir með móttökurnar.
Seinni partinn var svo fundað með þeim félagsmönnum sem eiga umsókn í Tékklandi. Sá fundur var mjög góður og gafst bæði umsækjendum og tékknesku fulltrúunum að fara vel yfir framkvæmd og ferla í Tékklandi.

Dagurinn var tekinn snemma á fimmtudagsmorgun og var sendinefndinni boðið í stutta skoðunarferð um Reykjanesskagann, þar sem brúin milli heimsálfa var skoðuð, Reykjanesviti heimsóttur og endað með að skoða Bláa lónið.
Að lokinni skoðunarferðinni var fjölskylduhátíð á Kjarvalsstöðum, þar sem börnin sem hafa verið ættleidd frá Tékklandi til Íslands voru í aðalhlutverki. Hátíðin heppnaðist frábærlega og voru fulltrúar tékkneska miðstjórnvaldsins heillaðir af móttökunum.
Heimsókninni lauk svo með kvöldverði með fulltrúum stjórnar Íslenskrar ættleiðingar.

Fulltrúarnir höfðu á orði að heimsóknin hefði farið fram úr væntingum þeirra og væri greinilegt að hér væri faglegt og metnaðarfullt starf. Tékkar leggja mikið uppúr sínu faglega starfi og þykir Íslenska módelið koma til fulls á mót við þær faglegu áherslur sem þeir hafa. Það sé vegna þessa sem sérfræðingar tékkneska miðstjórnvaldsins séu í auknum mæli að velja íslenskar fjölskyldur þegar kemur að pörun barna við umsækjendur.


Svæði