Fréttir

Stjórnarfundur 16.03.2010

Stjórnarfundur 16.mars 2010

1. Félagsgjald stjórnarmanna
Eftir að félagsgjald vegna ársins 2009 var sent til innheimtu bárust skilaboð frá tveimur fyrrverandi stjórnarmönnum þess efnis að venja eða hefð væri fyrir því að stjórnarmenn greiði ekki þessi gjöld fyrir það ár sem þeir eiga sæti í stjórn. Þar sem viðkomandi stjórnarmenn sátu í stjórn Í.Æ. fram í mars 2009 hafa reikningar til þeirra að sjálfsögðu verið bakfærðir í samræmi við þessa venju. Það er hinsvegar mat stjórnar Íslenskrar ættleiðingar að jafnræðis skuli gætt og ekki sérstakar ástæður til að umbuna stjórnarmönnum umfram þá fjölmörgu einstaklinga sem inna af hendi mikla vinnu í sjálfboðastarfi í ýmsum nefndum, ráðum og hópum á vegum félagsins. Stjórnarfólk í Íslenskri ættleiðingu mun því hér eftir greiða sitt félagsgjald þar til aðalfundur tekur ákvörðun um annað fyrirkomulag.

2. Biðlisti einhleypra
Að frumkvæði Í.Æ. voru samdar reglur um svokallaða hliðarlista fyrir einhleypa árið 2004 og þær sendar Dómsmálaráðuneyti til umsagnar. Ekkert álit virðist hafa borist úr ráðuneytinu en engu að síður hætti félagið að taka við umsóknum frá einhleypum þetta ár en skráði væntanlega umsækjendur á svokallaðan hliðarlista. Á fundi stjórnar Í.Æ. þann 19. Ágúst 2009 var fyrirkomulag hliðarlistans rætt og lagt til að þetta ferli verði endurskoðað. Það er mat stjórnar að engar forsendur séu til að halda þessum hliðarlista gangandi og ekki standi neinar heimildir til þess að mismuna fólki með þeim hætti að tekið sé við umsóknum frá sumum en öðrum neitað að vinna að sínu umsóknarferli og þeir flokkaðir til hliðar. Ráðuneyti Dómsmála- og mannréttinda verður send fyrirspurn um málið og að því búnu verður listinn lagður af og einhleypum heimilað að vinna að sínu umsóknarferli eins og öðrum borgurum.

3. Tillaga stjórnar að félagsgjaldi 2010
Félagsgjöld eru lítill hluti af tekjum félagsins og hafa lítil áhrif á rekstur þess. Það skiptir máli að félagsgjald sé ekki hærra en svo að þeim sem ekki sækja lengur þjónustu félagsins vaxi ekki í augum að greiða það. Meira máli skiptir að félagaskrá vaxi og eflist og styrkur félagsins aukist í réttu hlutfalli við fjölgun félaga. Stjórn Í.Æ. Leggur því til að félagsgjald fyrir árið 2010 verði óbreytt 5500 krónur.

4. Undirbúningur aðalfundar
Rætt var um skipulag aðalfundar og tillögu frá félagsmanni um að flytja fundinn í stærri sal og ákveðið að bregðast við þeirri ábendingu með því að bóka stærri salarkynni í sömu byggingu. Rætt var um áherslur í ársskýrslu með tilliti til þess að hún verði gefin út að fundi loknum. Rætt um reikninga félagsins. Rætt var um kjörskrá og gert var form að umboði til hægðarauka þeim félagsmönnum sem ekki eiga heimangengt á fundinn en vilja senda umboðsmenn í sinn stað. Forminu komið fyrir á vefsvæði félagsins.

5. Önnur mál.
Rætt var um nýjar athugasemdir frá umsækjendum um breytta afgreiðsluhætti sýslumannsins í Búðardal og hann hafi stöðvað afgreiðslu umsókna þar til skattframtöl liggja fyrir. Vigdísi falið að senda ráðherra athugasemdir og fyrirspurn um lögmæti heimilda sýslumanns til þessa vinnulags.


Svæði