Fréttir

Stjórnarfundur 21.02.2008

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 21. febrúar 2008, kl. 20:00
10. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2008
 
Mættir: Ingibjörg J, Ingibjörg B, Kristjana, Helgi, Karl Steinar, Pálmi og Arnþrúður, Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.
 
Ítarlegu sakavottorðin
Ítarlegur sakavottorðin eru nú send til ættleiðingarlandanna en áður fyrr fór Dómsmálaráðuneytið yfir þessi vottorð og almennu vottorðin voru síðan send til ættleiðingarlandanna. Á ítarlegu vottorðunum geta komið fram brot sem eru löngu fyrnd og skiptir þá engu máli hvort þau eru smávægileg eður ei. Vitnað er í íslensku lögin í þessum sakavottorðum en að öðru leyti eru upplýsingar um brotin mjög takmörkuð og ættleiðingarlöndin geta með engu móti áttað sig á um hvers konar brot er að ræða. Ekki hefur enn borist fyrirspurn frá ættleiðingarlandi um eitthvað sem fram kemur á ítarlegu vottorði. Helgi ætlar að ræða við dómsmálaráðuneytið um möguleikana á því að ráðuneytið svari ef fyrirspurn berst frá ættleiðingarlandi um fyrnt brot á ítarlegu sakavottorði.
 
NAC fundurinn í Danmörku
Stjórnarfundur NAC, Nordic Adoption Council, var haldinn á skrifstofu félagsins Danadopt í Birkeröd, Danmörku 26. – 27. janúar 2008. Þetta var fyrsti fundur nýrrar stjórnar sem starfar fram að næsta aðalfundi NAC í september 2009. Helstu verkefni nýrrar stjórnar og helstu viðfangsefni fundarins:
 
  1. Samstarfið við einkamálaskrifstofu Haag-ráðstefnunnar í Hollandi.
  2. Undirbúningsnámskeið umsækjenda um ættleiðingu.
  3. PAS – Post Adoption Services.
  4. Fjölmiðlaumfjöllun um ættleiðingar.
Margt var á dagskrá á fundinum, ýmis innri málefni voru rædd, einkum það sem snýr að því að nú hefur reikingshald flutt frá Noregi til Danmerkur. Hvert Norðurlandanna á einn fulltrúa í NAC, auk þess er formaður og ritari sem nú eru frá Danadopt og aukafulltrúi frá foreldrasamtökunum Adoptin og Samfund í Danmörku. Helstu mál sem rædd voru:
 
Hague Conference on Private International Law, einkamálaskrifstofa Haag-ráðstefnunnar, er gæslu- og umsjónaraðili með samningnum um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa frá 1993. NAC átti áheyrnarfulltrúa í Haag þegar vinna við samninginn átti sér stað og hefur átt gott samstarf við þá sem hafa stýrt vinnunni síðan. Eitt mikilvægasta verkefnið núna er lokavinnsla á svokölluðum „Good Practice Guide“, sem er hugsaður til þess að auðvelda stjórnvöldum í fæðingarlöndum barnanna að skilja samninginn og þau skilyrði sem hann kveður á um. NAC hefur lagt til að einföld handbók með efnisyfirliti og helstu stikkorðum verði gefin út samhliða þessum Good Practice Guide, því það er skylda okkar að sjá til þess að samstarfsaðilum okkar í ættleiðingum sé samningurinn auðskiljanlegur og gera það sem í okkar valdi stendur svo þeir geti auðveldlega unnið samkvæmt honum.
 
Miklar umræður voru um undirbúningsnámskeiðin og samræmingu þeirra á Norðurlöndum, en þar stöndum við á Íslandi mjög vel að vígi og erum með besta námskeiðið. Vissulega er engin fræðsla svo góð að ekki megi bæta hana og mun NAC nú fara í það að safna upplýsingum frá öllum Norðurlöndunum og leitast við að vinna bestu leiðina til að undirbúa umsækjendur.
Vaxandi áhyggjur eru af því að biðtími lengist í öllum löndum og er greinilegt að við því þarf að bregðast með einhverjum hætti. Margt var rætt í því sambandi og eftir því sem umsækjendur sjálfir segja vilja þeir helst fá nokkra uppbyggilega fræðsufundi á biðtímanum.
 
PAS – Post Adoption Services – ekki hefur enn tekist að finna á þennan lið almennilegt íslenskt orð svo við notum þetta áfram eins og aðrir. Hér eru óþrjótandi verkefni en eins og áður er það matsatriði hvað á að vera á vegum ættleiðingarfélaga og hvað á herðum samfélagsins í formi þjónustu sem allir þegnar eiga rétt á. Í Danmörku er í gangi spennandi verkefni þar sem danska ríkið fjármagnar 17 sérfræðingastöður víðs vegar um landið og kjörforeldrar geta leitað til í þrjú ár eftir heimkomu með ættleitt barn. Allir eiga kosta því að leita til sérfræðings að eigin vali með fimm úrlausnarefni/atriði og allt að fimm viðtöl vegna hvers þeirra, þannig að alls geta þetta verið 25 skipti og allt að kostnaðarlausu. Verkefnið fór af stað sl haust og verður fróðlegt að sjá hvernig þetta kemur út.
 
Hvað varðar NAC þá hefur undanfarið verið unnið að því að safna nöfnum á svonefndan sérfræðingalista, þ.e. sérfræðingar og fagfólk sem hefur reynslu og vilja til að aðstoða kjörfölskyldur og finna með þeim úrlausnir á vandamálum. Þetta er ekki hugsað sem tæmandi listi þess fagfólks sem hefur sérstaklega verið valið og vísað er til, heldur er þarna fólk sem er tilbúið að aðstoða þegar leitað er til þess. Nokkuð var rætt um stöðu ungra ættleiddra þ.e. á aldrinum 20-30 ára, ení Danmörku virðist vera vaxandi þörf á að koma til móts við þennan hóp, en það hefur ekki verið skoðað hvort það sama eigi við á hinum Norðurlöndunum.
 
Nokkuð var rætt um neikvæða fjölmiðlaumfjöllun, en nokkur slík mál hafa komið upp í Danmörku og Svíþjóð undanfarið og virðist mörgum fréttaskýrendum mikið í mun að draga upp neikvæða mynd af málaflokknum og jafnvel egna saman ættleiðingarfélögum – án þess að þau geri sér grein fyrir því fyrr en of seint. Rætt var um nauðsyn þess að fara varlega í þessum málum og ræða saman áður en yfirlýsingar eru gefnar út, svo menn hafi allar staðreyndir á hreinu.
 
Næsti aðalfundur NAC verður haldinn í Reykjavík í september 2009 og fer nú af stað undirbúningur fyrir hann. Ekki er ljóst ennþá hvaða aðalþema verður en það skýrist fljótt. Síðast var aðalfundur NAC haldinn í Reykjavík 1999.
 
Ættleiðingar frá Eþíópíu
Ingibjörg B. hitti fulltrúa frá DanAdopt þegar hún var á NAC fundinum og ræddi nánar fyrirhugað samstarf félaganna þegar ættleiðingarsamband við Eþíópíu kemst á. Ákveðið að fara í það ferli að sækja um löggildingu í Eþíópíu.
 
Ættleiðingar frá Kenía
Ákveðið að fara í það ferli að sækja um löggildingu í Kenía.
 
Ættleiðingar frá Makedóníu
Lagabreyting í Makedóníu gæti opnað fyrir einhverjar ættleiðingar þaðan, ef samstarf kemst á við stjórnvöld þar úti.  Ákveðið að fara í það ferli að sækja um löggildingu í Makedóníu.
 
Skjalavarsla
Dómsmálaráðuneytið hefur sent ÍÆ bréf þar sem fram kemur að ráðuneytið samþykkir ekki tillögu Persónuverndar um að ÍÆ geymi skjöl vegna ættleiðinga. Stjórn ÍÆ er sammála um mikilvægi þess að þessi skjöl séu geymd í þar til gerðum skjalavörslunargeymslum. Stjórn ÍÆ er einnig sammála um mikilvægi þess að þeir aðilar sem óska eftir að fá afhent ættleiðingarskjöl fái viðhlýtandi leiðsögn við afhendinguna af hálfu fagaðila með viðeigandi menntun og reynslu. Sent verður bréf til ráðuneytisins um mikilvægi leiðsagnar við afhendingu ættleiðingarskjala.
 
Aðalfundur ÍÆ
Aðalfundur 2008 verður fimmtudaginn 13. mars kl. 20:00. Fjögur sæti í stjórn eru í kjöri. Karl Steinar og Pálmi hafa ákveðið að hætta í stjórn ÍÆ en Ingibjörg B. og Kristjana gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Áður en aðalfundurinn hefst mun Lene Kamm flytja erindi um ættleiðingar frá sjónarhóli barnsins.
 
Fleira ekki rætt og fundi slitið.
 
Arnþrúður Karlsdóttir
Fundarritari

Svæði