Fréttir

Stjórnarfundur 24.04.2008

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 24. apríl 2008, kl. 20:00
3. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2008
 
Mættir: Ingibjörg J, Ingibjörg B, Finnur, Kristjana, Freyja og Arnþrúður, Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.
 
Heimsókn frá Kína
Sendinefndin frá Kína saman stendur af 7 starfsmönnum hjá CCAA og BLAS. Dagsetningar eru komnar á hreint en sendinefndin mun koma mánudaginn 12. maí sem er annar í hvítasunnu og fara aftur fimmtudaginn 15. maí. 
 
Ekki komið svar frá skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu hvenær þeir vilja hitta sendinefndina en önnur dagskrá veltur dálítið á því hvenær sá fundur verður og er því mikilvægt að fá svar sem fyrst. Guðrún mun hafa samband við Hauk Guðmundsson skrifstofustjóra dómsmálaráðuneytisins. Önnur dagskrá verður fundur með stjórn ÍÆ, boð með fjölskyldum sem ættleitt hafa frá Kína, heimboð hjá fjölskyldu sem ættleitt hefur frá Kína, skoðunarferðir og ferð í Bláa lónið. 
 
Nauðsynlegt er að leigja bíl fyrir sendinefndina á meðan hún dvelur hér á landi. Annað hvort verður að leigja litla rútu með bílstjóra eða leigja bíl og fá bílstjóra með meirapróf, athuga þarf hvað er hagstæðast og er Guðrún að skoða það. Athuga þarf hjá kínverska sendiráðinu hvort þeir vilja bjóða sendinefndinni til sín en þeir gerðu það þegar sendinefndin var hér á ferð fyrir tveimur árum. Finna þarf sal sem hentar fyrir fjölskylduboðið en það þarf að vera seinni part á virkum degi. Þá þarf að huga að gjöfum fyrir sendinefndina, í tvö fyrri skiptin hafa verið gefnar bækur um Ísland til minningar um heimsóknina.
 
Drög að dagskrá:
Mánudagur – Fljúga beint frá Kína, móttaka á Keflavíkurflugvelli kvöldverður á hótelinu.
Þriðjudagur/Miðvikudagur – Fundur með ráðuneytinu/stjórn ÍÆ 9 til 11, skoðunarferð
Miðvikudagur/Þriðjudagur – Fundur með stjórn ÍÆ/ráðuneytinu 9 til 11, heimboð hjá fjölskyldu, fjölskylduboð 17 til 19.
Fimmtudagur – Bláa lónið, Keflavíkurflugvöllur
 
Stjórnin verður með fyrirfram skilgreinda dagskrá og spurningar fyrir fundinn með sendinefndinni þar sem meðal annars verður spurt um biðtímann.
 
Sérþarfalisti CCAA
CCAA hefur gert breytingar á birtingu lista yfir börn með sérþarfir sem eru til ættleiðingar. Nú eru ekki lengur sendar upplýsingar til ÍÆ eins og hefur verið gert heldur eru upplýsingarnar birtar á lokuðu svæði á vefrsíðu CCAA, sem eingöngu er opið fyrir ÍÆ og svo á sameiginlegum lista fyrir fleiri ættleiðingarmiðlanir. Á lokaða svæðinu fyrir ÍÆ eru birtar upplýsingar um börn sem aðeins ÍÆ hefur leyfi til að hafa milligöngu um ættleiðingu á en á sameiginlega svæðinu eru birtar upplýsingar um börn sem allar ættleiðingarmiðlanirnar hafa leyfi til að hafa milligöngu um ættleiðingu á. 
 
Núverandi sérþarfaferli hjá ÍÆ yfirfarið og gerðar breytingar á því með tilliti til þeirrar reynslu sem komin er á ferlið og einnig vegna breytinganna hjá CCAA. 
 
Fundur með dómsmálaráðuneytinu
Fulltrúar frá ÍÆ sóttu fund með Hauki Guðmundssyni skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu vegna umsóknar um löggildingu í Makedóníu. Boltinn er núna hjá Hauki og mun hann hafa samband við tengilið hjá ættleiðingaryfirvöldum í Makedóníu vegna löggildingarinnar.
 
Önnur mál
Auglýsing Sölufélags garðyrkjumanna sem birt var 24. apríl var rædd. Ákveðið að skrifa bréf til Sölufélagsins og benda á óheppilegt orðalag í auglýsingunni og óska eftir því að hún verði ekki birt aftur án breytinga.
Biðtími eftir ættleiðingu hefur lengst í öllum ættleiðingalöndum. Ákveðið að halda fund með fólki á biðlista og ræða um lengri biðtíma eftir ættleiðingu.
 
Fleira ekki rætt og fundi slitið.
 
Arnþrúður Karlsdóttir
Fundarritari

Svæði