Fréttir

Aðalfundur ÍÆ 25.03.2004

haldinn 25.03.2004
í Kristniboðssalnum á Háleitisbraut, kl. 20:30.

Fundargerð.

Aðalfundur ÍÆ hófst sem fyrr á því að Lisa Yoder formaður, bauð gesti velkomna og lagði til að Guðmundi Rúnari Árnasyni yrði falin fundarstjórn og Ásta Björg Þorbjörnsdóttir yrði ritari fundarins og var það samþykkt. Guðmundur tók þegar við embættinu og lagði til smávægilegar tilfæringar á liðum aðalfundar og voru þær breytingar samþykktar.

Skýrsla stjórnar.
Lisa Yoder formaður, flutti skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár. Á sl. starfsári bárust 33 nýjar umsóknir um ættleiðingar, þar af 4 til Indlands en aðrir til Kína. Indlandslistinn hefur styst vegna þess hve mál hafa gengið hægt þaðan. Hefur flestum umsækjendum verið bent á Kínalistann Vonast er til að fyrsta barnið komi á árinu frá Bombay, en það er algjörlega nýtt samband og vonast stjórn til þess að þetta verði til að ný leið opnist.

Tvö börn, tvíburar, komu frá Kólumbíu á sl. ári. Aldurstakmörk verðandi foreldra þar eru öðrum hætti en t.d. Indlandi og Kína. Þar er gert ráð fyrir löngum dvalartíma foreldra í landinu en það hentar ekki öllum.

Nýr starfsmaður kom til starfa á skrifstofu félagsins, seint á sl. ári til að aðstoða við bókhald og ýmsa pappírsvinnu.

Málþing var haldið á sl. ári. Gerður var góður rómur að því enda frábærir fyrirlesarar. Formaður færði öllum sem stóðu að undirbúningi þingsins bestu þakkir fyrir frábært starf.

Anju, sem rekur barnaheimilið á Indlandi kom í stutta heimsókn í haust og átti meðal annars ánægjulega samverustund með fjölda barna sem ættleidd hafa verið frá barnaheimilinu og fjölskyldum þeirra ein sunnudagseftirmiðdag.

Leit að nýjum samböndum hefur ekki borið árangur. En þó hefur stjórn lagt töluverða vinnu í leit og verður þeirri vinnu haldið áfram. Hægt hefði verið að senda fleiri umsóknir til Kína á sl. ári.

Eitt af baráttumálum félagsins er að reyna að koma á styrkjum frá ríkinu til ættleiðenda. Formaður greindi frá ferli umsóknarinnar um þessa styrki sem er æði skrautlegur eins og fram hefur komið í nýlegum fundargerðum stjórnar. Bréf hefur verið sent á milli ráðuneyta, ekki hefur tekist að finna þessu heppilegan stað innan ráðuneytanna. Vonandi fer þessum sendingum á milli þeirra að linna. Varðandi þingsályktunartillögu Guðrúnar Ögmundsdóttur þá er einnig von okkar að hún verði samþykkt og verði farsællega leidd til lykta. Það er mikið réttlætismál að þeir sem ættleiði erlendis frá fái eitthvað til baka frá ríkinu sem sparast vegna foreldra sem eignast barn á þennan hátt.

Það sem liggur fyrir á þessu ári hjá félaginu er að efla verkefni sem stuðla að góðgerðarmálum bæði í Indlandi og Kína. Brýnt er að félagið kaupi með öðrum aðilum sem standa saman að barnaheimilinu á Indlandi, stærra húsnæði.

Félagsstarf hefur verið blómlegt í vetur. Má þar nefna foreldramorgna, krakkapartí, Kínaárshátíð, kaffisamsæti af tilefni Indlandsheimsóknar, fyrirlestur með Hugó Þórissyni, sálfræðingi og Valgerði Baldursdóttur, væði í Rvk og á Akureyri. Dagskrá félagsins er að finna á heimsíðunni.

Tólf stjórnarfundir voru haldnir, auk hádegisfunda og vinnufunda.

Fréttabréfið er komið út og stefnir ritnefnd að útkomu þess tvisvar á ári.

Ársreikningar félagsins.
Ingvar greindi frá reikningum félagsins. Einn aleflisreikningur er í eigu félagsins en hann er ekki í ársreikningum. Þetta er Aleflis-styrktarreikningur sem er eyrnamerktur starfseminni á Indlandi. Aðeins eru fjórir aðilar sem greitt hafa styrki inn á þennan reikning en Anju var einmitt veittur styrkur úr honum í heimsókninni í haust.

Umræður og atkvæðagreiðslur.
Í framhaldi af reikningum félagsins gafst fundarmönnum tækifæri á að spyrja bæði um skýrslu stjórnar og einnig út í reikningana.

Spurt var hvers vegna svona mikill munur væri á innheimtu félagsgjalda á milli ára. Ingvar svaraði því til að árið 2002 hafi í raun verið að innheimta eitt og hálft árgjald. En einnig er raunin sú að félagsgjöld innheimtast ekki vel.

Spurt var um hvað væri innifalið í félagsaðild og svaraði Ingvar því til að það væri tilgreint í lögum félagsins. Einnig að hafi félagsmaður ekki greitt árgjaldið í tvö ár er heimild fyrir því að fella viðkomandi af félagaskrá.

Spurt var um eignarhluta okkar í barnaheimilinu á Indlandi, hvers vegna hann sé ekki í reikningum félagsins. Eignarhluti okkar er aðallega fólginn í styrkjum sem við höfum sent til reksturs barnaheimilisins.

Það er verið að tala um að 2-2.5 milljónir þurfi að koma sem styrkur frá félaginu fyrir nýju húsnæði á Indlandi. Lisa greindi frá nauðsyn þess að barnaheimilið kæmist í stærra húsnæði og er það vegna þess að börnin eru eldri og þurfa af þeim sökum aukið rými. Spurt var um hvort við kæmum til með að geta haft áhrif á val þess. Ingvar sagði frá húsnæði sem hefði verið í deiglunni sem barnaheimilið missti af v.þ.a. aðildarfélögin voru ekki tilbúin með greiðslur fyrir því. Við verðum að bregðast fljótt við þegar upplýsingar um hentugt húsnæði berast. Stjórnendur barnaheimilisins eru þá örugglega bestir til þess fallnir að meta staðsetningu og húsnæðið sjálft.

Spurt var um fjárveitingu frá ríkinu til starfa ÍÆ, hvort hún sé komin í fastar skorður. Ingvar svaraði því til að þannig liti það út. Nýi starfsmaðurinn var ráðinn seint á árinu 2003 og er það skýringin á góðri fjárhagsstöðu félagsins, að launagreiðslur voru minni en reiknað hafði verið með.

Spurt var um hvaða lönd hefðu verið skoðuð og hvert hefði verið leitað, að nýjum samböndum. Lisa svaraði að ekki hefðu borist svör frá Tékklandi. Rússland gerir kröfur um starfsfólk og skrifstofu í landinu. Verið er að kanna aðila sem við höfum fengið boð um samstarf við sem standa að ættleiðingum þaðan. En Dómsmálaráðuneytið þarf að samþykkja nýja samstarfsaðila. Austur-Evrópa er fremur erfið viðureignar. Víetnam hefur opnað aftur fyrir ættleiðingar til norðurlanda. Suður-Afríka hefur ættleitt börn til erlendra fjölskyldna um nokkurt skeið. Í stuttu máli má segja að verið sé að skoða þau lönd sem yfir höfuð heimila ættleiðingar á börnum til útlanda.

Spurt var hvor hægt væri að vænta aðstoðar við öflun nýrra sambanda t.d. frá frændum okkar á norðurlöndunum, en það mun ekki vera upp á borðinu. Það hafa allir nóg með sig og vilja fá sem flest börn fyrir sitt land.

Spurt var um skýringu á svari ÍÆ til allsherjarnefndar varðandi þá sem ættleiða með undanþágu Dómsmálaráðuneytisins þ.e. hvort styrkurinn sé ekki hugsaður fyrir þá. Guðrún svaraði því til að þessir punktar væru unnir út frá reglum frá norðurlöndunum og þannig væri það þar.

Spurt var hvort réttlætanlegt sé að styrkja með svona miklum peningum barnaheimilið á Indlandi meðan málum er svona háttað þar og jafnvel yfirlýst stefna þeirra að draga úr eða hætta ættleiðingum til erlendra ríkja. Lisa svaraði því til að við værum ekki að fá færri börn en hin aðildarfélögin og það væri einfaldlega ósk okkar að standa jafnfætis hinum félögunum . Svíar fengu 6 börn á liðnu ári eins og við en bandaríkjamenn fá fleiri því þeir taka fúslega við medical case börnum líka.

Spurt var um hvort hægt væri að hafa einhver áhrif á aðbúnað okkar barna í krafti eignarhluta okkar þar, var þar átt við t.d. að mælt væri með aukinni vítamín og járngjöf í ljósi þess að mörg börn skortir þetta oft við heimkomu. Lisa svaraði því að aðbúnaður barna á heimilinu í Indlandi væri ekki slæmur í samanburði við önnur barnaheimili þar í landi og sýna þurfi varfærni í samstarfi það væri viðkvæmt hvernig samböndum við höldum við barnaheimilið. Við getum t.a.m. ekki skikkað þau til að haga sér eftir okkar vilja.

Spurt var um gang mála varðandi ættleiðingu frá Bombay. Þar er eitt mál í gangi sem verður ek. prófmál hjá Dómsmálaráðuneytinu. Aðstandendur barnaheimilisins vilja ganga til samstarfs við okkur. Lisa taldi að barnaheimilið væri gott, en Skandinaviu félögin hafa hætt samstarfi. Þetta barnaheimili er mun stærra í sniðum miðað við það sem við höfum nú samband við.

Bent var á að félagið ætti að vinna markvissara að því að afla nýrra sambanda því þó staðan sé góð við Kína núna veit enginn hvort eða hvenær það breytist. Lisa sagði það rétt að ekki væri rétt að binda sig við eitt land. Það verður að leita betur. Það verður sem sagt verkefni nýrrar stjórnar. Það tók vissulega mörg ár að koma á þessum samböndum við Kína.

Ingvar minnti á kostnaðarhliðina, varðandi ný sambönd. Það er mjög dýrt að koma á nýju sambandi.

Við erum alltaf að leita samstarfs við lönd sem henta þörfum okkar ættleiðenda. Ljóst er að flestir vilja börnin sem yngst og aldursmörk foreldra í löndunum eru mjög mismunandi.

Undir skýrslu stjórnar tók Guðmundur Guðmundsson til máls. Hann hafði meðferðis punkta sem hann birti á skjá og ræddi út frá. Hann sagði frá því að nokkur hópur félagsmanna hefði komið saman fyrr í vetur, þar sem m.a. var rætt um stjórn og starfshætti ÍÆ. Afrakstur þess fundar mætti sjá á meðfylgjandi glærum. (Sjá viðauka1).

Eftir sinn málflutning bauð hann sig fram í stjórn félagsins.

Reikningar félagsins voru því næst bornir til atkvæða og samþykktir samhljóða.

Ákvörðun árgjalds.
Hingað til hefur árgjaldið verið kr. 4000 fyrir nýja félagsmenn en kr. 2000 fyrir þá sem verið hafa 5 ár eða lengur. Nokkuð var rætt um ástæður þessarar skiptingar, en hún er einkum sú að tilhneiging er fyrir eldri félagsmenn að detta úr tengslum við félagið og er þetta liður í að halda sem flestum inni.
Nokkrar tillögur um annað árgjald komu úr sal en engin formleg þa. eina tillagan um breytt árgjald, kr. 5000 fyrir nýja félagsmenn og kr. 2500 fyrir eldri var samþykkt.

Kjör stjórnar.
Næst var gengið til kjörs á nýrri stjórn félagsins. Fjórir, til viðbótar við þá þrjá úr eldri stjórn, gáfu kost á sér til stjórnarsetu til næstu tveggja ára.
Það voru:

• Gerður Guðmundsdóttir
• Guðrún Sveinsdóttir
• Helga Gísladóttir
• Ingvar Kristjánsson.

Þar sem Guðmundur bauð sig fram á fundinum var komin upp sú staða að kjósa þurfti í næstu stjórn. Kjörseðlum var dreift og eftir talningu atkvæðaseðla var ljóst að nýkjörin stjórn yrði:

• Ásta B. Þorbjörnsdóttir
• Gerður Guðmundsdóttir
• Guðmundur Guðmundsson
• Helga Gísladóttir
• Ingibjörg Jónsdóttir
• Ingvar Kristjánsson
• Lisa Yoder.

Annáll fræðslunefndar
Næst steig í pontu Ingibjörg Jónsdóttir, fulltrúi stjórnar í fræðslunefndinni. Hún greindi frá þeim námskeiðum sem boðið var upp á á árinu. Ingibjörg Birgisdóttir hinn fulltrúinn í nefndinni talaði um fræðslumálin eins og hún vildi gjarnan sjá þau í framtíðinni og sýndi ágæta punkta því til fulltingis (sjá viðauka 2).

Kjör nefnda
Þá var næst að kjósa í nefndir. Búið var að stilla upp í flestar nefndir, en fræðslunefnd er skipuð af stjórn, en á fundinum gerðist það óvænta að fjöldi fólks gaf kost á sér til viðbótar í sumar nefndir. Eftirfarandi aðilar skipa þá nefndir félagsins:

Ritnefnd:

• Alda Sigurðardóttir
• Gíslína Ólafsdóttir
• Snjólaug Sigurðardóttir
• Stefán Stefánsson
• Þórdís Ívardóttir

Skemmtinefnd:

• Arnþrúður Karlsdóttir
• Ingibjörg Marísdóttir
• Klara Geirsdóttir

Fjáröflunarnefnd:

• Guðrún Hólmgeirsdóttir
• Kristjana E. Jóhannsdóttir
• Sigrún Snorradóttir
• Sigurlín Baldursdóttir

Fræðslunefnd:

• Ingibjörg Birgisdóttir
• Ingibjörg Jónsdóttir

Þá var komið að lokum aðalfundarins. Guðmundur Árni, óskaði nýrri stjórn velfarnaðar í starfi og Lisa Yoder, formaður félagsins endaði með að þakka honum góða fundarstjórn.

Fundi slitið kl. 23:11.
Ásta B. Þorbjörnsdóttir.

Viðauki1.

Meginsjónarmið.

• Félagið leggi metnað sinn í þjónustu við ættleiðendur.

Starfsemi ÍÆ

• Ættleiðingarferli til þeirra landa sem samband er við verði betur skilgreint og skipulag á skrifstofu verði bætt með verkferlum um meðferð og stöðu mála. Ferlin verði skrifleg og til afhendingar.

• Félagið veiti félagsmönnum sem leita nýrra sambanda virkan stuðning og veiti þá aðstoð sem aðstæður krefjast á hverjum tíma.

• Félagið temji sér hlutleysi gagnvart ákvörðunum umsækjenda og reyni ekki að hafa áhrif á ákvarðanir þeirra.

• Félagið verði virkur málsvari ættleiðinga (ættleiðenda) og veiti meiri aðstoð þegar vandamál koma upp í ættleiðingarferlinu, m.a. í sambandi við seinagang og brot opinberra stofnana á eigin starfsreglum varðandi tímaramma í ættleiðingarferlinu.

• Félagið haldi utan um stuðningshópa eldri foreldra fyrir nýja foreldra sem og teymi fagaðila til stuðnings ættleiðendum, t.a.m. sálfræðinga.

• Biðlistar verði gagnsærri og birtir á heimasíðu, en nöfn umsækjenda þó hulin.

• Félagið sendi reglulega, t.d. á 3 mánaða fresti, fréttir um öll löndin sem eru í ferli hjá félaginu. Jafnvel þó “ekkert” sé að frétta.

• Félagið haldi félagsmönnum upplýstum um breytingar sem verða á reglum í einstökum löndum.

Hlutverk stjórnar

• Störf stjórnar verði sýnilegri en nú er.

• Lögð verði áhersla á eftirlitshlutverk stjórnar með starfsemi félagsins og félagsmönnum gert kleyft að koma ábendingum/kvörtunum vegna starfsemi félagsins til stjórnar.

• Framkvæmdastjóri víki úr stjórn til að eftirlitshlutverk hennar sé virkt.

Viðauki 2.

Fræðsla fyrir umsækjendur og kjörforeldra

• Fyrir ættleiðingu
• Eftir ættleiðingu

Fyrir ættleiðingu

• Almenn kynning til þeirra sem eru að hugsa um að ættleiða og hafa áhuga á málefninu.
• Undirbúningsnámskeið fyrir umsækjendur verði efld.
• Fjarfræðsla í bland við fundi hjá ÍÆ
o Umsóknarferlið
o Fræðsla um hvað það þýðir að ættleiða barn, siðferðilegar spurningar í kringum ættleiðingu
o Er fólk í raun og veru tilbúið?
o Umönnun - hvað er öðruvísi í byrjn?

Eftir ættleiðingu

• Skv. þröngt skilgreindu lagalegu hlutverki miðlunarfélaga er afskiptum lokið þegar barnið er komið í umsjá kjörforeldra.
• Ekki heillavænlegt – hvorki fyrir kjörfjölskylduna né félagið sjálft. Á Íslandi er enn langt í land með að aðrir en þeir sem vinna beint að ættleiðingu taki að sér fræðslu.

Erlend efni til þýðinga

• Ritröð frá AC í Svíþjóð alls 18 hefti – m.a.
o Áhrif aðskilnaðar
o Heilsufar og þroski
o Máltaka
o Að ættleiða eldra barn
o Kjörbarnið fer í leikskóla / Grunnskóla
o Að ættleiða einstæð(ur)
o Unglingsárin / Hver er ég? / Hver vill ég vera?

Fagfólk

• Fyrirlestrar
• Bein aðstoð við kjörforeldra – á það að vera á vegum ÍÆ
• Hjálparlínur
• Tölvupóstur
• Yfirlit yfir þá sérfræðinga og stofnanir sem kjörforeldrar þurfa að leita til


Svæði