Fréttir

Therapeutic Parenting in Real life

Einstakt tækifæri sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Íslensk ættleiðing býður upp á afar fróðlegt og hagnýtt námskeið laugardaginn 17. mars næstkomandi sem ég mun svo sannarlega ekki láta fram hjá mér fara. Námskeiðið ber yfirskriftina Therapeutic Parenting in Real Life og kennari er Sarah Naish, félagsráðgjafi í Bretlandi og foreldri fimm ættleiddra barna. Hún hefur lengi starfað að málefnum ættleiddra barna og fósturbarna sem ráðgjafi auk persónulegrar reynslu hennar. Hún er einn helst sérfræðingur Breta í þessum málaflokki og rekur nú sitt eigið ráðgjafarfyrirtæki. Bæði hún sjálf og fyrirtæki hennar hafa hlotið fjölda verðlauna fyrir vönduð störf sín. 

Sarah Naish hefur skrifað fjölmargar bækur um meðferðarnálgun í uppeldi barna sem upplifað hafa áföll. Bæði fróðlegar og aðgengilegar bækur fyrir uppalendur, sem eiga sinn fasta sess á náttborðinu hjá mér, og einstaklega áhrifamiklar sögur fyrir börnin sjálf. Ættleidd börn tengja sterkt við sögurnar sem byggja á persónulegri reynslu hennar og barna hennar. Í gegnum þær fá þau aukna innsýn og dýpri skilning á óreiðukenndum tilfinningum sem þau sjálft geta verið að glíma við. Því miður hafa sögurnar ekki (ennþá) verið gefnar út í íslenskri þýðingu en ég hef þýtt þær lauslega og lesið fyrir mín börn sem drekka þær í sig. Þannig hafa þær skapað þægilegan umræðugrundvöll okkar á milli og auðveldað þeim að átta sig á flóknum tilfinningum sem þau eru að takast á við og þeim líkamlegu einkennum, hugsunum og hegðun sem fylgja. 

Að mínu mati er það mikill fengur fyrir okkar litla samfélag að fá þennan mikla fræðimann hingað til lands. Á námskeiðinu mun Sarah fara yfir hvernig nýta má aðferðarfræði hennar í uppeldi og faglegu starfi til að bæta samskipti og auka samkennd og skilning. Það er góð nýting á einum laugardegi, fyrir foreldra jafnt og fagfólk, að kafa ofan í þann viskubrunn. Ég hvet alla áhugasama til að missa ekki af þessu einstaka tækifæri og nýta sér þessa fræðslu. Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest í Veröld – húsi Vigdísar Finnbogadóttur laugardaginn 17. mars næstkomandi! 

Frekari upplýsingar og skráningu á námskeiðið má finna hér 

Hulda Sólrún Guðmundsdóttir, móðir tveggja ættleiddra barna og sálfræðingur. 


Svæði