Fréttir

Um notkun orðsins „ættleiðing“

Mynd: Getty
Mynd: Getty

08.02.2013 Ritstjórn

Sonur minn er ekkert líkur mér. Hann er heldur ekkert líkur pabba sínum, né neinum öðrum í fjölskyldunni. Stundum strýkur hann mér hárið og segir „við erum með alveg eins hár“ en við vitum bæði að það er ekki rétt, mitt hár er músargrátt en hans er hrafnsvart. Það vefst ekki fyrir neinum sem sér okkur saman að hann er ættleiddur. Hann var tæplega þriggja ára þegar við hittumst fyrst og man, eða telur sig muna, þegar hann kvaddi „hinar mömmurnar“ sem höfðu annast hann í Kína.

Eftir því sem hann eldist og þroskast eykst löngun mín til að gera athugasemdir við notkun orðsins „ættleiðing“ þar sem mér finnst hún ekki eiga við.  Ég sé eftir að hafa stillt mig um að hringja í Ríkisútvarpið þegar það flutti frétt af því að hópur fólks hefði „ættleitt“ illa farið hús á Raufarhöfn og bjargað því frá niðurrifi, og ég vildi að hefði haft samband við Jón Gnarr þegar hann vildi „bjóða áhugasömum að ættleiða drykkjumenn sem hafast við á götum borgarinnar“ eins og það var orðað í kynningu hjá Kastljósi.

Undanfarið hef ég stundum skrifað athugasemdir hjá Facebook vinum sem auglýsa dýr til „ættleiðingar“ og langar til að útskýra betur það sem ég á við. Ég vona að þessi skrif verði til þess að vekja fólk til umhugsunar um notkun orðsins og verði því hvatning til að forðast líkingar sem geta sært börn sem hafa verið í viðkvæmri stöðu og varða tilfinningar þeirra.

Ég skil alveg hvað vakir fyrir þeim sem líkja sambandi fólks og dýrs við samband foreldra og barns; þeir sem á annað borð annast dýrin sín vel bera oft mjög sterkar tilfinningar til dýranna og sinna þeim af ábyrgð og kærleika. Það er sjálfsagt það sem orðinu „ættleiðing“ er ætlað að koma til skila þegar fólk tekur að sér dýr og vill líkja sambandinu við eitthvað indælt og varanlegt, fólk eignast barn og barn eignast fjölskyldu. Það er líka skiljanlegt að þeir sem nota orðið á þennan hátt um dýr hafi ekki hugleitt ættleiðingar eða ættleidd börn og tilfinningar þeirra, en það breytir því ekki að líkingin getur hitt ættleidd börn illa fyrir. Og mér finnst alveg sjálfsagt að benda á það.

Í mínum huga skiptir á endanum minna máli hvað líkingunni er ætlað að gera fyrir þann sem notar hana en það sem hún getur gert þeim sem taka hana nærri sér.

Ættleidd börn eru sjaldnast mjög gömul þegar þau átta sig á að þau fundust einhvers staðar þar sem þau höfðu verið skilin eftir.  Mörg þeirra upplifa erfiðar spurningar og tilfinningar tengdar höfnun, að eitthvað sem þau voru eða voru ekki hafi orðið til þess að þau voru yfirgefin. „Af hverju vildi mamma þín ekki eiga þig?“ er t.d. spurning sem önnur börn spyrja í barnaskap sínum. Þegar ættleidda barnið stálpast getur það á vitsmunasviðinu skilið að örbirgð er líklegasta skýringin á að móðir þess lét það frá sér en tilfinningarnar eru engu að síður mjög sárar og sumir kljást við þær alla ævi.

Að vísa til ensku í þessu sambandi finnst mér haldlítið. Sögnin „adopt“ og nafnorðið „adoption“ eiga uppruna í latínu þar sem merkingin er almenn: að taka að sér, taka upp, gera að sínu, en merking ættleiðingar í íslensku afmarkast í upphafi við það þegar barn er tekið í fjölskyldu. Enskumælandi samkundur hika ekki við að „adopt a resolution“ en okkur fyndist fráleitt að „ættleiða samþykkt“. Notkun orðsins „adoption“ í tengslum við dýravernd er hvarvetna umdeild og mörgum ættleiddum til ama; það þarf enginn að fara langt á internetinu til að finna greinar og blogg því til staðfestingar.

Ættleiðingarlíkingin er heldur ekki aðeins notuð í jákvæðri merkingu. Það líður varla svo vika að ég sjái ekki status, komment eða heyri í foreldrum tala um að hitt eða þetta barnið sé svo óþekkt, leiðinlegt, lasið eða frekt að viðkomandi langi til að biðja einhvern að „ættleiða“ það. Auðvitað á þetta að vera grín, en í hugsunarleysi verður hinn fullorðni til þess að vekja hjá börnum hugmynd um að eitthvað í fari ættleiddra barna hafi orðið til þess að þau voru yfirgefin.

Það er fullkomlega eðlilegt að fólk almennt átti sig ekki á þessum tengingum fyrr en því er bent á þær. Vegna sonar míns finn ég mig knúna til að reyna að fá fólk til að íhuga þessa orðanotkun og breyta henni, jafnt vini og kunningja sem starfsmenn dýraverndunarsamtaka og aðra.

Kettlinginn sem annars hefði verið lógað gildir einu hvaða orð er notað um samband hans við fólkið sem tekur hann að sér. Hann þarf bara að vona að enginn fái ofnæmi eða flutt verði í hús þar sem kattahald er bannað.

„Á íslensku má alltaf finna svar“ og því er auðvelt að komast hjá því að særa börn með því að setja þau í flokk með yfirgefnum dýrum, illa förnum húsum eða öðrum fyrirbærum sem eru löskuð og/eða þarfnast „björgunar“.

Ættleiðing er nefnilega ekki góðgerðarmál heldur fjölskyldumál.

Höfundur: Birna Gunnarsdóttir


Svæði