Fáðu fréttir og tilkynningar frá ÍÆ á netfangið þitt.
Flýtilyklar
Fréttir
Aðalfundur Íslenskrar ættleiðingar
05.02.2018
Aðalfundur félagsins verður haldinn þriðjudaginn 6.mars kl. 20:00 á Hótel Hilton.
Samkvæmt samþykktum félagsins er dagskrá fundarins sem hér segir:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár lagður fram til samþykktar.
3. Kjör stjórnar.
4. Ákvörðun árgjalds.
5. Lagabreytingar.
6. Önnur mál.
Í samþykktum félagsins segir um stjórnarkjör:
Stjórn félagsins skal skipuð 7 mönnum: Formanni, varaformanni og fimm meðstjórnendum. Kosning stjórnarmanna ræðst af atkvæðamagni. Falli atkvæði jafnt við kjör skal endurtaka kosningu milli viðkomandi frambjóðenda og falli atkvæði enn jafnt ræður hlutkesti. Sé aðeins einn frambjóðandi í kjöri skoðast hann sem sjálfkjörinn án leynilegrar kosningar. Kosning stjórnar fer fram á aðalfundi ár hvert eða aukaaðalfundi. Hluta stjórnarmanna skal kjósa árlega til tveggja ára í senn, þrjá annað árið og fjóra á því næsta.
Engar lagabreytingar verða lagðar fram á fundinum, þar sem engar lagabreytingatillögur bárust fyrir tímamörk. Í samþykktum félagsins segir um lagabreytingar:
Tillögur til breytinga á samþykktum félagsins skulu berast stjórn félagsins skriflega í síðasta lagi 31. janúar ár hvert og skulu þær tilgreindar í fundarboði. Engar tillögur um breytingar á samþykktum bárust að þessu sinni.
Í stjórn félagsins nú eru:
Elísabet Hrund Salvarsdóttir, formaður
Ari Þór Guðmannsson
Dagný Rut Haraldsdóttir
Lára Guðmundsdóttir
Lísa Björg Lárusdóttir
Magali Mouy
Sigurður Halldór Jesson
Að þessu sinni eru þrjú sæti í stjórn félagsins til kjörs. Dagný Rut Haraldsdóttir hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu að þessu sinni. Ari Þór og Sigurður Halldór hafa hins vegar ákveðið að gefa kost á sér að nýju.
Vakin er athygli á að framboðsfrestur til stjórnarkjörs er samkvæmt samþykktum félagsins til klukkan 20:00 þann 20. febrúar og skal senda framboð til félagsins á netfangið isadopt@isadopt.is
Lesa meira
Fræðsluerindi framundan
05.02.2018
Íslensk ættleiðing leggur mikið uppúr að fræðslu, ráðgjöf og stuðningi, bæði fyrir og eftir ættleiðingu. Eitt af því sem félagið bíður uppá fyrir félagsmenn og fagfólk er fyrirlestrarröð yfir vetrarmánuðina.
Fyrirlestur febrúarmánaðar verður haldinn 8. febrúar klukkan 17.30 og er titill fyrirlestrarins Internationally adopted children’s language and reading mastery. Fyrirlesarinn að þessu sinni er hin norska Anne-Lise Rygvold. Hún fór nýlega á eftirlaun eftir margra ára starf innan sérkennslusviðs Oslóarháskóla, en þar hefur hún stýrt talmeinafræðideild háskólans.
Anne-Lise hefur haft mikinn áhuga á ættleiddum börnum og lauk nýverið langtímarannsókn þar sem börn sem ættleidd voru frá öðrum löndum voru borin saman við samanburðarhóp þeirra sem ekki voru ættleiddir. Áhersla rannsóknarinnar var að kanna hvernig tungumálið og lestrarkunnátta þeirra sem ættleiddir eru í þessum samanburði.
Skráning hér
16. mars, 13-17 á Hótel Natura
Í mars mun félagið standa fyrir afmælismálþingi og bjóða þar uppá metnaðarfulla dagskrá. Aðalfyrirlesari er Sarah Naish, með erindi sem heitir Therapeutic parenting and adoption. Auk Söruh verða fleiri áhugaverð erindi á dagskrá. Nánari upplýsingar munu verða kynntar fljótlega.
Sarah er búin að starfa í þrjá áratugi innan málefna ættleiddra ásamt því að vera foreldri fimm ættleiddra barna. Hún hefur því gríðarlega reynslu af málaflokknum, bæði faglega og persónulega. Sarah var valin Kona ársins árið 2014 af samtökum kvenna í atvinnulífinu í Bretlandi.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér frekar störf og bakgrunn Söruh Naish, ættu að smella hér
Í kjölfar afmælismálþings mun félagið standa fyrir námskeiðinu, PACE in real life sem Sarah leiðbeinir á. Námskeiðið er sérstaklega fyrir þá sem hafa ættleitt börn sem glíma við tengslavanda, en gagnast öllum foreldrum ættleiddra barna. Þá hentar námskeiðið foreldrum barna sem eru í langtímafóstri og fagfólki sem starfar í málaflokkunum. Námskeiðið verður haldið laugardaginn 17. mars.
Í fræðsluerindi aprílmánaðar verður kastljósinu beint að skólaaðlögun ættleiddra barna og sérstöðu þeirra á fyrstu árum skólagöngunnar. Ingibjörg Margrét Magnúsdóttir grunnskólakennari, MA í sérkennslu er fyrirlesari í þetta skiptið en hún er móðir tveggja ættleiddra barna. Fyrirlesturinn verður haldinn 28. apríl, 11.00 – 12.30.
Að venju verður fókusinn í maí á þau börn sem eru að hefja leik- eða grunnskólagöngu. Foreldrar þeirra barna sem eru að byrja á þessum skólastigum eru sérstaklega boðaðir á þessa fræðslu, en aðrir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir. Fræðslan verður haldin 29. maí.
Lesa meira
Er eitthvað að óttast?
05.02.2018
Í janúar bauð félagið uppá fyrirlestur Björns Hjálmarssonar barna- og unglingageðlæknis, sem nefndist "Er eitthvað að óttast?" þar sem fjallað var um snjallsímanotkun barna og unglinga, skjátímann sem hefur verið að lengjast á undanförnum árum eftir því sem tækninni fleygir fram. Björn starfar á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans en þar hefur skjólstæðingum verið að fjölga sem hafa þurft á þjónustu að halda vegna vandamála sem hægt er að tengja við snjallsímanotkun.
Fyrirlestur Björns þótti mjög fræðandi og áhrifaríkur.
Félagið hefur lagt sig fram um að þjónusta sem flesta og hefur boðið þeim sem ekki hafa tök á því að koma á fyrirlestranna að fylgjast með þeim í beinni útsendingu. Þessi þjónusta er sérstaklega hugsuð fyrir félagsmenn sem búa ekki á höfuðborgarsvæðinu
Síðan í haust hefur félagið boðið uppá barnagæslu fyrir þá sem þurfa á að halda. Að þessu sinni mættu 8 börn.
Lesa meira
Leit
Gerast félagi
Íslensk ættleiðing er eina félagið á Íslandi sem hefur löggildingu stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. Félagið var stofnað af áhugafólki um málefnið árið 1978 og hefur reksturinn lengst af verið borinn uppi af sjálfsaflafé og miklu sjálfboðastarfi félagsmanna.
Árgjald Íslenskrar ættleiðingar er 4.900 krónur fyrir einstakling.