Fáðu fréttir og tilkynningar frá ÍÆ á netfangið þitt.
Flýtilyklar
Fréttir
Fréttabréf febrúar 2018
06.02.2018
* 40 ára afmæli Íslenskrar ættleiðingar
* Breytingar í Kína
* Barna og unglingastarf
* Upprunaleit og erfðapróf
* Þjóðhátíðardagur Indlands
* Skemmtinefnd
* Er eitthvað að óttast?
* Fræðsluerindi framundan
* Aðalfundur Íslenskrar ættleiðingar
* Reynslusaga - Olga Elenora
Lesa meira
40 ára afmæli Íslenskrar ættleiðingar
05.02.2018
15.janúar 1978 var stofnfundur félagsins haldinn í Norræna húsinu. Félagið hlaut nafnið Ísland – Kórea og var síðan sameinað félaginu Ísland – Guatemala og hlaut hið sameinaða félag nafnið Íslensk ættleiðing árið 1983. Árið 2010 var félagið svo sameinað Aðþjóðlegri ættleiðingu. Á þessum 40 árum síðan félagið var stofnað hefur margt breyst.
Í upphafi byggðist allt starf Íslenskrar ættleiðingar upp á sjálfboðavinnu félagsmanna og annarra velunnara, ekki var skrifstofa og flestir stjórnarfundir voru haldnir heima hjá stjórnarmönnum. Vendipunktur varð í starfi félagsins þegar skrifstofa var opnuð árið 1988, en þegar hafið var samstarf við Indland var eitt af skilyrðum þeirra að félagið væri með skrifstofu. Mikil hluti starfsins hélt þó áfram að vera í sjálfboðavinnu, t.d. fræðsla og stjórnarstörf. Árið 1993 kom svo jákvætt svar frá Fjárlaganefnd Alþingis um að félagið fengi árlegan styrk frá hinu opinbera en fyrir það hafði eina tekjulind félagsins verið félagsgjöld.
Miklar breytingar urðu í heimi ættleiðingarmála á þessum árum. Árið 1993 var gerður Haag samningurinn um vernd barna og ættleiðingar á milli landa en Ísland gat ekki gerst aðili að þeim samningi fyrr en ný ættleiðingarlög komu árið 2000. Með aðild að samningnum er tryggð samvinna aðildarríkjanna um ættleiðingar barna. Sama ár, 1993, kemur Íslensk ættleiðing að stofnun Euradopt – regnhlífarsamtök ættleiðingarfélaga í Evrópu. Og tveimur árum síðar gengur félagið í samtök norrænna ættleiðingarfélaga NAC. Það hefur verið og er mjög mikilvægt fyrir lítið félag eins og okkar að komast í samstarf við önnur félög til að efla allt starf.
Kjörforeldrar áttu ekki rétt á fæðingarorlofi áður en frumvarp um það var samþykkt á Alþingi 1995. 2006 kemur Ættleiðingarstyrkur en fram að því töldu stjórnvöld að sá styrkur sem félagið sjálft fékk væri nóg, ekki þyrfti sérstaklega að styrkja kjörforeldra.
Eins og í öllum félögum hafa skapast deilur, komið fram ólíkar hugmyndir sem ekki allir voru kannski sáttir við á sínum tíma, en ég held að við getum öll verið sammála því að sú þróun sem átt hefur sér stað innan félagsins sé mjög jákvæð.
Í desember 2013 var undirritaður þjónustusamningur milli Innanríkisráðuneytis og Íslenskrar ættleiðingar. Baráttan sem átt hafði sér stað á árunum á undan hafði skilað sér að hluta. Samningurinn tryggði fjármögnun félagsins til 2 ára og gjörbreyti aðstöðu þess til að sinna þeim verkum sem því er ætlað skv. lögum og reglugerðum. Þessi samningur og framlög til félagsins úr fjárlögum mörkuðu tímamót í sögu ættleiðinga, vöktu og vekja athygli erlendis því með þessu eru fjármögnun og gæði ættleiðingarstarfsins ekki lengur háð fjölda ættleiðinga. Hið Íslenska módel er orðið vel þekkt, þjónustusamningurinn við ráðuneytið sem tryggir rekstur félagsins þannig að fræðsla, ráðgjöf, stuðningur og þjónusta er tryggð.
Um síðustu áramót var komið að endurnýjun á þjónustusamningnum. Teljum við að margt í samningnum þurfa að laga að breyttu umhverfi og erum enn þeirrar skoðunar að það fjármagn sem félagið fær vegna hans, nægi ekki til að sinna öllum lögboðnum verkefnum. En eins og við vitum öll hafa miklar breytingar átt sér stað í íslenskum stjórnmálum síðasta árið og munu næstu mánuðir vera nýttir til að kynna þeim aðilum sem koma nýir að, málaflokkinn.
Starf og þjónusta félagsins miðar að því að sinna félagsmönnum eins vel og kostur er enda eru þeir félagið. Eitt af markmiðum Íslenskrar ættleiðingar er að tryggja góða faglega þjónustu. Nú starfa bæði sálfræðingur og félagsráðgjafi ásamt starfsmanni skrifstofu og framkvæmdarstjóra. það mikil breyting frá 1988 þegar einn starfsmaður var í hlutastarfi. Uppbygging á fræðslustarf hefur verið í mikilli endurskoðun síðustu mánuði, farið hefur verið af stað með Barna – og unglingastarf aftur, auk þess sem fræðsla til væntanlegra kjörforeldra verður efld. Félagið þarf að vera tilbúið að taka þátt í þeirri þróun sem á sér stað hverju sinni og leita að nýjum leiðum til að aðstoða og fræða félagsmenn.
Í viðræðum okkar við ráðuneytið í tengslum við endurskoðun á þjónustusamningnum hefur komið fram að ráðuneytið telji mikilvægt að félagið haldi áfram að leggja áherslu á að veita félagsmönnum víðtæka ráðgjöf og þjónustu eftir ættleiðingu, þar sem sá stuðningur er gríðarlega mikilvægur þáttur í ættleiðingarferlinu. Í gæðahandbók Haag-stofnunarinnar er meðal annars vísað til þess að ættleiðing sé ekki einn einstakur atburður sem lýkur eftir að ættleiðing fer fram heldur er um lífslangt ferli einstaklings að ræða.
Og lýsir þetta vel stöðu ættleiðingarmála í dag, ættleiðingum fer fækkandi og biðin er orðin lengri. Þessar breytingar eru ekki bara að eiga sér stað hjá okkur heldur í öllum heiminum. Rúmlega 1.000 börn hafa verið ættleidd til landsins, þó ekki öll í gegnum félagið, og á síðustu árum hafa ættleiðingar verið um 6 á ári. Áherslan hefur færst mun meira frá því að sjá um milligöngu um ættleiðingu yfir í meiri kröfur um fræðslu og stuðning til bæði væntanlegra foreldra á meðan biðin er, þegar heim er komið og einnig eftir því sem árin líða frá ættleiðingunni. Fleiri eru farnir að huga að því hvaða áhrif ættleiðingin getur hafa haft og aðrir eru farnir að huga að uppruna sínum og vilja leggja í þá vegferð að leita uppruna síns og þessir aðilar þurfa aðstoð félagsins. Og Íslensk ættleiðing þarf tækifæri og fjármagn til að mæta því.
Frá því að ég kom að félaginu fyrir 7 árum hefur mikil þróun átt sér stað, sérstaklega er viðkemur allri fræðslu og fjárhagslegum stöðugleika félagsins. En félagið er ekkert án félagsmanna sinna og hefur síðustu ár dregið úr þátttöku þeirra í starfi félagsins, ég vona að félagsmenn fari að nýta sér alla þá fræðslu sem þeim stendur til boða og það góða starfsfólk sem við höfum aðgang að.
Ég vil fyrir hönd félagsins þakka öllum þeim sem hafa komið að þeirri þróun sem átt hefur sér stað frá því að félagið var stofnað fyrir 40 árum síðan.
Elísabet Hrund Salvarsdóttir, formaður Íslenskrar ættleiðingar
Lesa meira
Sagan okkar, eftir Olgu Elenoru Marcher Egonsdóttur
05.02.2018
Daginn eftir 38 ára afmælisdaginn minn gekk ég til fundar við Íslenska Ættleiðingu til að athuga hvaða möguleika ég hefði, þessi fundur markaði upphafið af mínu ættleiðingaferli. Þetta var í nóvember 2010.
Sex árum eftir fundinn, eftir að hafa verið búin að ganga í gegnum allt ferlið hjá sýslumanni, verið samþykkt á biðlista í Togo, endurnýjun á forsamþykki og óendanlega bið, var ekkert að frétta. Ég var við það að gefa upp alla von og sömuleiðis fólkið í kringum mig.
Einn góðan sunnudag í janúar 2017 vaknaði ég upp af værum svefni svolítið rykug eftir Þorrablót. Síminn hringdi og það eina sem ég fékk að vita var að þetta væri símtalið sem ég hefði beðið eftir í allan þennan tíma. Hugsanirnar og tilfinningarnar sem streymdu á þessum örfáu mínútum sem tók að keyra uppí Skipholt verður seint toppað. Litla stelpan mín hún Emilía Audrey var orðin mín og það var var aldrei neinn vafi á því, ég held að við báðar höfum verið að bíða eftir rétta tímanum.
Eftir að ég sendi bréf út varðandi það að ég vildi ættleiða hana þurfti málið að fara í gegnum dómskerfið í Togo. Vanalega hefur þetta ferli tekið um 6-7 mánuði og ég átti því ekki von á því að fara út fyrr en í fyrsta lagi í júlí. Ég var nokkuð róleg framanaf, fannst ég hafa allan tímann í heiminum til að undirbúa komu hennar.
En einn dag í byrjun maí 2017 fékk ég að vita að ég mætti koma og sækja hana. Ég var í vinnunni og fékk vægt taugaáfall, andaði ótt og títt, gekk í hringi og talaði bara tóma vitleysu. Þegar ég var búin að átta mig aðeins betur á þessu öllu saman vaknaði verkefnastjórinn í mér og allt fór á flug. Það þurfti að panta flug, fá vegabréfsáritun, bóka hótel, finna bílsstjóra, losna úr vinnunni, pakka og svona mætti lengi telja. Ég setti upp Kanban borð í vinnuherberginu heima og post-it miðarnir flæddu um allt. Blessunarlega naut ég aðstoðar fjölskyldu og vina bæði áður en ég fór út og á meðan ég var úti.
Þrjár vinnu og skemmtiferðir voru planaðar þetta sumar erlendis og var öllum flugmiðum hent nema einum. Ég ákvað að fara með vinkonunum í húsmæðraorlof um Hvítasunnuhelgina og halda svo áfram til Parísar en þaðan flaug ég til Togo. Það var kærkomið að kúpla sig frá öllu og fá aðeins „frí“.
Mamma fór með mér til Togo og það voru því gríðarlega spenntar mæðgur sem hittust á Charles de Gaulle eldsnemma að morgni Hvítasunnudags 4. júní, tilbúnar fyrir ævintýrin framundan. Flugið til Lome tók bara um átta tíma með millilendingu í Niger og við lentum í Lome höfuðborg Togo um kvöldmatarleytið.
Theo starfsmaður íslenskrar ættleiðingar og Fabrice bílstjórinn okkar tóku á móti okkur á flugvellinum og keyrðu okkur uppá hótel. Við dvöldum á Hótel Residence Madiba sem var um 30 mínútur fyrir utan borgina. Þarna var notalegur garður, flott sundlaug og strönd. Við leigðum lítinn bungalow með verönd þar sem við gátum horft út á hafið.
Eftirvæntingin þegar við vöknuðum daginn eftir var ólýsanleg. Hinsvegar, þegar við komum uppá skrifstofu ættleiðingarnefndarinnar var okkur tjáð að afþví að það væri annar í Hvítasunnu þá fengjum við ekki að hitta Emilíu Audrey fyrr en daginn eftir. Þvílík vonbrigði. Ljósi punkturinn var þó að frænka mín flaug til okkar frá Sierra Leoni til að vera okkur til halds og trausts fyrstu dagana.
Skt. Claire barnaheimilið sem Emilía Audrey bjó á er inní Lome. Barnaheimilið er rekið af kaþólskum nunnum og er klaustur þarna við. Aðkoman að barnaheimilinu er vinaleg þetta eru lágreistar byggingar, ljósgular að lit og það eru trjágöng upp að aðalhúsinu til að veita skugga. Fyrir framan húsið er leiksvæði fyrir krakkana með allskonar tækjum. Á barnaheimilinu eru 3 deildir með rúmlega 60 börnum og er markmiðið að þau verði öll ættleidd. Emilía Audrey var á elstu deildinni.
Við fengum að koma á barnaheimilið þriðjudaginn eftir Hvítasunnu. Þegar við komum var okkur vísað inná skrifstofu og þar var byrjaði að ræða málin, hvernig aðlögunin færi fram og svo framleiðis. Ég átti svo von á því að við færum í annað herbergi til að hitta Emilíu Audrey.
En allt í einu birtist lítil stelpa í screen-hurðinni, hún var í ljósbleikum kjól, með stýri í hárinu. Á þessu augnabliki missti hjartað úr nokkur slög. Þegar hurðin opnaðist hljóp hún beint í fangið á mér og hélt svo fast um hálsinn, eins og hún ætlaði aldrei að sleppa. Það var ekki þurrt auga á skrifstofunni. Emilía Audrey kúrði fast í hálsakotinu hjá mér þangað til henni voru boðnar rúsínur, þá fyrst fékk ég að sjá almennilega framan í hana. Eftir smá tíma fengu svo amma og frænka að knúsa hana líka. Nunnurnar sögðu mér seinna að hún hefði sýnt lítil viðbrögð þegar þau voru að segja henni að hún ætti mömmu og voru að sýna henni myndir, eftirvæntingin var því mikil að sjá hvernig hún myndi taka mér.
Næstu fjóra daga kom ég í daglegar heimsóknir á barnaheimilið og var þar frá því klukkan sjö á morgnana til sex á kvöldin með smá hléi yfir daginn. Lífið á Skt. Claire er í fastmótuðum skorðum og gekk ég inní það til að læra hennar rútínu. Ég gaf henni að borða, klæddi hana og baðaði, setti á koppinn og lék við hana. Við fórum í marga göngutúra um klausturgarðinn að leita að eðlum og fiðrildum og hoppa, en þetta voru fyrstu orðin hennar. Þarna var líka skemmtilegt leikherbergi með fullt af dóti og bókum. Á meðan ég var með Emilíu Audrey voru mamma og frænka að aðstoða á heimilinu. Emilía Audrey tengdist mér strax, ég var alltaf að bíða eftir því að það kæmi bakslag og að hún myndi hafna mér en það kom aldrei. Það var í raun ótrúlegt að hún vildi ekkert hafa með börnin eða starfsfólkið á barnaheimilinu þegar ég var á staðnum, algjörlega hundsaði þau.
Á fimmta degi mátti ég svo taka dömuna með mér heim á hótel en þurfti að koma með hana aftur á barnaheimilið klukkan sex. Það að skilja hana eftir er það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni. Blessunarlega gekk aðlögunin framar vonum og aðeins viku eftir að við vorum sameinaðar fékk hún að koma alveg til mín, eftir það fórum við bara á barnaheimilið í heimsóknir.
Við vorum í Togo í heilan mánuð. Næstu vikurnar fóru því í að kynnast betur og njóta lífsins við sundlaugina. Borða ís og gera annað skemmtilegt. Við heimsóttum barnaheimili í Aneho, heimsóttum saumastofu Tau frá Togo, fórum á leikvelli í borginni, í ísbíltúra og göngutúra. Síðustu 10 dagana kom svo mágkona mín til að aðstoða okkur á lokasprettinum og vera til halds og trausts á heimleiðinni.
Undir lok júní voru svo allir pappírar tilbúnir og Emilía Audrey var útskrifuð af barnaheimilinu. Til þess að fagna því slógum við til stórrar veislu. Það var sko fjör þann eftirmiðdag. Öll börnin á deildinni voru mætt og allt starfsfólkið líka. Það var dansað og sungið, það voru blöðrur, borðaðar kökur og drukkið gos. Allir krakkarnir voru svo leystir út með sleikjó.
Það var hátíðleg stund þegar við fórum á skrifstofu Claude, Ræðismanns Íslands í Lome til að fá íslenskt vegabréf fyrir dömuna. Daman hafði aldrei áður komið í húsakynni með svona miklu fíneríi sem þurfti að skoða og snerta. Mamman og amman voru því alveg á nálum.
Þegar Emilía Audrey var orðin íslenskur ríkisborgari og komin með íslenskt vegabréf var hún í raun orðin „ólögleg“ inní landinum, við þurftum því að sækja um vegabréfsáritun fyrir hana svo við kæmumst út úr landinu. Það tók þrjár heimsóknir til Immigration og nokkra daga. Það hefði ekki mátt tæpara standa, því að aðeins tveimur dögum fyrir brottför vorum við komin með alla pappíra.
Heimferðin gekk framar öllum vonum. Emilía Audrey lét eins og hún væri alvanur ferðalangur, settist strax í sætið sitt í flugvélinni og spennti beltin. Þetta var næturflug og hún sofnaði því fljótt og vaknaði ekki fyrr en rétt fyrir lendingu í París. Það var ótrúlegt að fylgjast með þessari litlu stelpu á flugvellinum í París, hún lét sér fátt um finnast og steig í rúllustiga og inní lest eins og ekkert væri sjálfsagðara. Heillaði alla uppúr skónum og vakti athygli hvert sem hún fór. Henni leist nú ekkert á þetta land þegar rokið og rigningin uppá Miðnesheiði skall á andlitið á henni, en hefur tekið það í sátt síðan.
Nú eru liðnir sjö mánuðir frá því við komum heim. Allt hefur gengið framar óskum. Emilía Audrey er gríðarlega orkumikill fjörkálfur, hún elskar allan ærslagang og hlær dillandi hlátri. Hún er mjög örugg og sjálfstæð lítil stelpa og er ekkert smeyk við að kanna heiminn án mömmu sinnar. Emilía Audrey byrjaði á Grænuborg í október, fyrst hálfan daginn.
Það var ómetanlegt að hafa Theo, starfsmann Íslenskrar Ættleiðingar í Togo, með okkur í þessu ferli. Hann var okkur til halds og trausts og hjálpaði okkur í gegnum allt ferlið. Hann var alltaf til taks og mættur ef það þurfti að þýða fyrir okkur eða redda einhverju hvort sem það var vegabréfsáritun, áletruð terta eða klæðskeri. Í gegnum Theo réðum við svo bílstjórann Fabrice, þvílík stoð og stytta sem hann var. Hann gat sagt okkur svo mikið um Togo á okkar löngu bíltúrum, þekkti alla og allt sem okkur vantaði sá hann til þess að við fengjum.
Lesa meira
Leit
Gerast félagi
Íslensk ættleiðing er eina félagið á Íslandi sem hefur löggildingu stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. Félagið var stofnað af áhugafólki um málefnið árið 1978 og hefur reksturinn lengst af verið borinn uppi af sjálfsaflafé og miklu sjálfboðastarfi félagsmanna.
Árgjald Íslenskrar ættleiðingar er 4.900 krónur fyrir einstakling.