visir.is - Ræddi bara við suma umsækjenda
Dómsmálaráðuneytið sendir mál til umsagnar ættleiðingarnefndar í undanþágutilvikum og þegar vafi leikur á að skilyrði til að veiting leyfis til ættleiðingar sé fyrir hendi. Ættleiðingarnefnd fer ekki með mál í samstarfi við viðkomandi barnaverndarnefnd hverju sinni, þar sem verkefni hinnar síðarnefndu er lokið, lögum samkvæmt, þegar þar er komið sögu. Þetta sagði Margrét Hauksdóttir formaður ættleiðinganefndar, spurt um starf nefndarinnar. Hún kvaðst ekki vilja tjá sig um það einstaka mál sem nú væri fyrir dómstólum. Það snýst um að Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar mælti með því að Lilja Sæmundsdóttir mætti ættleiða barn frá Kína. Ættleiðingarnefnd mælti ekki með leyfi til ættleiðingar. Dómsmálaráðuneytið synjaði umsókn Lilju sem fór með málið fyrir Héraðsdóm. "Þegar dómsmálaráðuneytið vísar máli til ættleiðinganefndar nefnir það þau atriði sem það vill láta athuga, " sagði Margrét. Spurð hvort nefndin kallaði þá viðkomandi umsækjanda og sérfræðinga til viðtals kvað Margrét það fara eftir því hvað um væri að ræða hverju sinni. "Við höfum aflað frekari upplýsinga og rætt við sérfræðinga, svo og umsækjendur í málum. Það fer eftir því um hvað er verið að fjalla hverju sinni. Ég hef ekki athugað það nákvæmlega en get trúað að það gerist í um það bil helmingi mála. Það er engin skylda hjá okkur að kalla umsækjendur fyrir. Við eigum einungis að gæta þeirra sjónarmiða að hvert mál sé rannsakað með næganlegum hætti og tryggja að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir, sem byggja megi umsögn nefndarinnar á." Spurð hvort það gæti ekki reynst erfitt að ljúka því sem ráðuneytið teldi ábótavant í rannsókn máls, án þess að kalla fyrir viðkomandi sérfræðinga og/eða umsækjendur, sagði Margrét það fara eftir því hvað verið væri að athuga. Líta yrði á hvert mál með heildrænum hætti. Spurð hvort í umræddum tíu málum hefði verið stuðst við fyrirliggjandi umsagnir barnaverndarnefna vísaði Margrét á ráðuneytið. Það tæki ákvörðun um að senda mál til ættleiðingarnefndarinnar og hefði þá sínar forsendur fyrir því. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra kvaðst ekki vilja tjá sig varðandi mál sem væri fyrir dómstólum.