Fréttir

VÍSIR - Ríkið styrkir fjölskylduna í Kólumbíu um þrjár milljónir

Fjölskyldan á góðri stundu. MYND AF FACEBOOK-SÍÐU
Fjölskyldan á góðri stundu. MYND AF FACEBOOK-SÍÐU

Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að verja þremur milljónum af ráðstöfunarfé sínu til að styrkja fjölskylduna sem dvalið hefur í Kólumbíu í níu mánuði í þeim tilgangi að ættleiða þaðan tvær stúlkur.

Hjónin Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir og Friðrik Kristinsson fóru í desember síðastliðnum til Kólumbíu að sækja tvær litlar stelpur sem þau hugðust ættleiða frá Kólumbíu. Eldri dóttirin er tæplega fimm ára en sú yngri tæplega þriggja ára. Þau fengu dæturnar í hendurnar þann 20. desember, en þau höfðu beðið í um árabil eftir þeirri stund.

Eftir að hjónin taka við börnunum sínum í Kólumbíu fer ættleiðingarmálið fyrir dómstóla þar í landi og þurfa börnin að fá útgefin vegabréf og loks vegabréfsáritun til þess að komast heim til Íslands. Útgefið er að ferlið í landinu tekur 4 - 6 vikur, en hjónin hafa nú beðið í níu mánuði eftir því að fá dæturnar heim á meðan málið velkist um í dómskerfinu.

Mál þessarar fjölskyldu er einstakt að því er segir í tilkynningu frá formanni íslenskrar ættleiðingar, og á sér ekki hliðstæðu í Kólumbíu eða í reynslubanka Íslenskrar ættleiðingar. 

Augljóst er að óvænt níu mánaða dvöl í öðru landi hefur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir fjölskylduna og þá ekki síst á fjárhag hennar. En samkvæmt fréttum stendur kostnaður þeirra nú í um 12 milljónum króna vegna þessarar útiveru.

Á föstudagskvöld bárust Íslenskri ættleiðingu þær fréttir að ríkisstjórn Íslands hafi tekið þá ákvörðun að verja af ráðstöfunarfé sínu þremur milljónum til að styrkja fjölskylduna í sínum þröngu aðstæðum.

Það mun hafa verið Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sem, eftir ábendingu frá skrifstofustjóra í innanríkisráðuneytinu, beitti sér fyrir því utan og innan ríkisstjórnar að fjölskyldunni yrði lagt lið með þessum hætti.

http://visir.is/rikid-styrkir-fjolskylduna-i-kolumbiu-um-thrjar-milljonir/article/2012120919838



Svæði