Eftirfylgni - Kína

Eftir ættleiðingu eru gerðar sex eftirfylgniskýrslur að kröfu CCCWA. 
Fyrsta skýrsla skal unnin einum mánuði eftir ættleiðingu,
önnur skýrsla sex mánuðum eftir ættleiðingu,
þriðja skýrsla tólf mánuðum eftir ættleiðingu,
fjórða skýrsla tveimur árum eftir ættleiðingu,
fimmta skýrsla þremur árum eftir ættleiðingu,
sjötta skýrslan og sú síðasta fimm árum eftir ættleiðingu.

Miðað er við þá dagsetningu þegar ættleiðingin var skráð í Kína. Skýrslurnar þurfa að vera unnar af félagsráðgjafa sem ráðin hefur verið til verksins af stjórnvöldum eða ættleiðingarfélagi. Félagsráðgjafi þarf að undirrita eftirfylgniskýrsluna og skila inn frumriti.

Eftirfylgniskýrslurnar skulu verið eins uppbyggðar og í þeim þarf að koma fram upplýsingar um:

  • Heilsa og líkamlegurþroski: Hæð, þyngd og höfuðummál við ættleiðingu og þegar skýrslan er gerð, mat á fínhreyfingum barnsins, mat á almennri hreyfifærni barnsins, bólusetningar, meðferð og endurhæfing vegna nýlegra veikinda osfrv.
  • Daglegar athafnir: Matarræði, matarlyst og uppáhaldsmatur. Svefnvenjur; sefur barnið í eigin herbergi, sefur það vel, vaknar það á nóttinni, hvenær fer barnið að sofa, hvenær vaknar það. Hafa foreldrar farið frá barninu, hvernig gekk það og hvernig voru viðbrögð þess þegar foreldrar komu aftur heim, Leikur; uppáhaldsleikir, uppáhaldsleikfang og hversu mikið leikur barnið sér. Hvenær fer barnið í leikskólann og hvenær kemur það heim.
  • Tengslamyndun: Aðlögun barnsins að foreldrum, systkinum og fjölskyldu (amma, afi og aðrir ættingjar). Samband barns við systkini, hver huggar barnið, hver er í uppáhaldi, hver passar barnið? Fer það í gistingu annarsstaðar? Beðið er um sérstaklega ítarlega umfjöllun ef barnið var eldra en 3 ára þegar það var ættleitt.
  • Andlegur þroski: Andlegur þroski barns og málþroski (máltaka, málskilningur, skýrleiki í framburði osfrv.)
  • Þroski persónuleika: Fjallið um persónuleika barnsins og hver eru persónueinkenni þessi.
  • Menntun: Er barnið heima (hvaða kennsla fer fram heima), í leikskóla eða skóla. Hvernig gengur námið?
  • Upplifun fjölskyldu: Skilningur og viðhorf til ættleiðingarinnar foreldra, annarra fullorðinna sem búa á heimilinu og annarra ættingja.
  • Sýn samfélagsins: Þátttaka í samfélagslegum athöfnum, mat nágranna á fjölskyldunni, hvernig finnst þeim að ættleiðingin hafi tekist?
  • Breytingar á högum fjölskyldunnar: Hafa orðið einhverjar miklar breytingar á högum fjölskyldunnar eftir að barnið var ættleitt? Eins og hjúskaparstöðu foreldra, börn á heimilinu (bæst við / flutt að heiman), fjárhagsstaða fjölskyldunnar, flutningar, breytingar á umhverfi eða alvarleg veikindi.
  • Annað: Eitthvað annað sem félagsráðgjafa finnst vert að komi fram.
  • Samantekt og almennt mat félagsráðgjafa: Meðmæli félagsráðgjafa og almennt mat á því hvort ættleiðingin hafi tekist vel eða ekki. Hvað finnst félagsráðgjafa almennt um aðlögun barnsins, hvernig er fjölskyldulífið og hvaða breytinar hafa orðið á fjölskyldunni eftir að barnið kom.

Fylgja þarf með öllum skýrslum:

  1. Afrit af ferðaleyfinu sem gefið var út af CCCWA (ÍÆ prentar skjalið út og sendir með skýrslunni).
  2. 8 myndir (15.2 cm x 10.2 cm), myndirnar eiga að vera lýsandi fyrir líf ættleidda barnsins. Myndirnar eiga að vera af barninu, barninu með foreldrum sínum og öðrum í fjölskyldunni. Á sumum myndum ætti að vera eitthvað dæmigert fyrir Ísland. Í fyrstu skýrslunni eiga að vera myndir af því þegar fjölskyldan fyrst hittist í Kína og af skráningarferlinu. Athugið að myndirnar mega ekki vera svart/hvítar. Líma á myndirnar á A4 blað, tvær á hverju blaði. Undir hverja mynd þarf að skrifa hvenær og hvar myndin var tekin og hverjir eru á myndinni. Það má alls ekki skila inn myndabúnka eða myndum heftuðum saman. Ekki má heldur senda myndaalbúm.
  • Stutt ritgerð frá barninu sjálfu þarf að fylgja með hverri skýrslu þegar það hefur náð 10 ára aldri. Í ritgerðinni þarf barnið að fjalla um reynslu sína og uppvöxt hjá fjölskyldu sinni, hvernig honum /henni gegnur í skólanum, hvernig er sambandið við kennarana og bekkjarsystkini.

Í viðbót við þetta þarf að koma fram eða fylgja með ákveðnum skýrslum eftirfarandi atriði:

Fyrsta skýrsla: Aðaláherslan á að vera á það hvernig ættleidda barnið aðlagast fjölskyldu sinni og hvernig því gekk að samlagast henni fyrst eftir að þau hittust í Kína. Foreldrar þurfa að lýsa ferlinu í Kína, hvernig þeim fannst það virka og hvernig þeim leið á meðan. Einnig þarf líka að koma fram hvernig ættleiðingarfélagið aðstoðaði við aðlögunina á fyrstu stigunum. Myndir af því þegar fjölskyldan fyrst hittist í Kína og af skráningarferlinu eiga að fylgja með.

Önnur skýrsla: Staðfesting á að barnið er komið með íslenskan ríkisborgararétt. Staðfestingin getur verið bréf frá sýslumanni um staðfestingu á réttaráhrifum, útprentun á fjölskylduvottorði frá þjóðskrá þar sem kemur fram að barnið er íslenskur ríkisborgar eða ljósrit af íslensku vegabréfi barnsins. Foreldrar þurfa að láta löggiltan skjalaþýðanda þýða bréf sýslumanns eða vottorðið frá Þjóðskrá yfir á ensku eða kínversku.

Þriðja skýrsla: Foreldrar sem ættleidd hafa börn af sérþarfalista þurfa að fylla út blaðið „Feedback on the Special Needs Child“ sem skrifstofa ÍÆ/félagsráðgjafi er með og fjalla um það hvernig þeir fylgdu eftir „medical rehabilitation and nurturing plan“ (sem þeir settu inn í umsókn sína) fyrsta árið eftir að þeir ættleiddu barnið.

Fjórða, fimmta og sjötta skýrsla: Félagsráðgjafi þarf að fjalla sérstaklega um heilsu barns og leikskóla eða skóladvöl. Ef ekki er fjallað sérstaklega um það í skýrslunum þarf að láta fylgja með læknisvottorð og mat frá leikskóla / skóla. 

Foreldrar sem hafa ættleitt tvö börn eða fleiri skulu skila skýrslu fyrir hvert barn (nema þau séu tvíburar), ekki má sameina skýrslur.
Spyrja þarf foreldra hvort CCCWA megi nota skýrsluna og myndirnar í auglýsinga –og kynningarskyni og láta það koma fram í skýrslunni.

Ef barni hefur verið komið fyrir hjá annarri fjölskyldu, það er látið eða brotið hefur verið alvarlega á því skulu stjórnvöld eða ættleiðingarfélag láta CCCWA vita þó ekki sé komið að eftirfylgniskýrslu.

Svæði