Fréttir

Kjörforeldrar ósáttir við þjónustu sýslumanns

Höfundur Brjánn Jónasson

Foreldrar sem hafa ættleitt börn frá öðrum löndum á síðustu tveimur árum eru afar ósáttir við þjónustu sýslumannsembættisins í Reykjavík. Í könnun á þjónustu við kjörforeldra kemur fram að aðeins 15,4 prósent voru ánægð með viðmót starfsfólks sýslumannsembættisins og 11,5 prósent voru ánægð með afgreiðsluhraða og veittar upplýsingar.

„Þarna þarf að taka vel til,“ er haft eftir einum þátttakenda í könnuninni. „Það þarf að gerbreyta öllu verklagi, þetta er viðkvæmur málaflokkur fyrir umsækjendur og auðvitað börnin. Þjónustan þarf að vera persónulegri.“

Könnunin, sem náði til foreldra sem ættleiddu börn á árunum 2014-2016, var gerð af óháðum aðila fyrir Íslenska ættleiðingu. Markmiðið með henni var að kanna viðhorf til þjónustu félagsins, sem og viðhorf til þeirra stofnana sem kjörforeldrar þurfa að eiga samskipti við tengt ættleiðingunni.

Ánægja með þjónustu sýslumanns hefur dregist verulega saman frá því sambærileg könnun var gerð síðast, meðal foreldra sem ættleiddu börn á árunum 2013-2014. Þá sögðust 36,8 prósent ánægð með viðmót starfsfólks embættisins og 26,3 prósent ánægð með afgreiðsluhraða.

Flestir ánægðir með þjónustu ÍÆ
Í könnuninni voru foreldrar einnig spurðir um viðhorf þeirra til þjónustu Íslenskrar ættleiðingar og annarra stofnana sem koma að ættleiðingarferlinu, svo sem félagsráðgjafa Barnaverndar og Barnaspítala Hringsins.

Mikill meirihluti svarenda, um 87 prósent, sögðust ánægð með þjónustu Íslenskrar ættleiðingar í öllu ferlinu. Um 88,9 prósent sögðust ánægð með viðmót starfsfólksins, sem er ívið hærra hlutfall en í síðustu könnun, sem gerð var meðal foreldra sem ættleiddu börn á árunum 2013-2014.

Þá sögðust 77,7 prósent ánægð með upplýsingarnar sem þau fengu skrifstofu félagsins. Þar hefur hlutfallið lækkað talsvert frá síðustu könnun, þegar um 94,7 prósent voru ánægð. 

Mikilvægt að heyra af reynslu annarra
Á undirbúningsferli verðandi kjörforeldrar fara þeir á tvö námskeið sem Íslensk ættleiðing sér um, annars vegar námskeiðið Að taka á móti barni og hins vegar námskeiðið Fyrstu skrefin.

Þorri kjörforeldra síðustu tvö árin er ánægður með námskeiðin. Um sjö af hverjum tíu sögðust ánægð með upplýsingarnar sem þeir fengu og á bilinu 73 til 85 prósent sögðu að fræðsla á báðum námskeiðum hafi nýst þeim eftir að þau höfðu ættleitt börn sín.

„Að heyra af reynslu annarra sem hafa ættleitt er gríðarlega mikilvægt. Einnig var gott að hitta annað fólk í sömu hugleiðingum,“ er haft eftir einu af kjörforeldrunum í niðurstöðum rannsóknarinnar.

Samskipti við Barnavernd og spítalann ganga vel
Verðandi kjörforeldrar þurfa að fá samþykki Barnaverndar áður en þeir fá að ættleiða barn. Yfirgnæfandi meirihluti foreldra, alls um 92 prósent, sögðust ánægð með samskiptin við félagsráðgjafa Barnaverndar. Það er svipað hlutfall og í síðustu könnun.

Heldur færri voru ánægðir með afgreiðsluhraða hjá Barnavernd, eða um 65,4 prósent. Þar hefur hlutfallið lækkað talsvert frá síðustu könnun þegar 78,9 prósent voru ánægð með afgreiðsluhraðann.

"Auðvitað hefur maður skilning á því að starfsfólk Barnaverndar er hlaðið verkefnum,“ er haft eftir einum þátttakenda í niðurstöðum rannsóknarinnar. „Við fengum samt alltaf fína þjónustu og þau vildu allt fyrir okkur gera.“

Þá er yfirgnæfandi meirihluti kjörforeldra ánægður með þjónustu Barnaspítala Hringsins eftir heimkomu. Alls sögðust 92 prósent ánægð með þjónustu spítalans.


Þarf fleira sérhæft starfsfólk hjá sýslumanni

"Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að gera reglulega kannanir af þessu tagi til að átta okkur á því hvað það er sem gengur vel og hvar við þurfum að bæta okkur,“ segir Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar.

Hann segir það vissulega áhyggjuefni að kjörforeldrar fái ekki þjónustu sem þeir eru ánægðir með hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík. „Við höfum auðvitað heyrt af þessari óánægju meðal kjörforeldra og viljum svo gjarnan að þarna verði bætt úr.“

Kristinn segir kjörforeldra auðvitað hafa samúð með starfsfólki sýslumannsins, sem hafi unnið undir miklu álagi undanfarin ár. „Við teljum að það þurfi að fjölga starfsfólki hjá embættinu og gæta að því að þeir sem sinna þessum málaflokki hafi þá sérþekkingu sem þarf,“ segir hann.

Þjónustukönnun 2014 - 2016             

 


Svæði