Fáðu fréttir og tilkynningar frá ÍÆ á netfangið þitt.
Flýtilyklar
Fréttir
Barna- og unglingastarf, vorönn 2018
05.01.2018
Á nýju ári ætlar Íslensk ættleiðing að halda áfram með barna- og unglingastarf. Tilraun var gerð nú í haust með slíkt starf, það gafst vel og ljóst að það er full ástæða til að halda áfram. Við munum halda okkur við aldursskiptinguna og vinna með krakkana í tveimur hópum. Eldri hópur er 11-14 ára, yngri hópur 8-10 ára.
Á haustmánuðum voru 23 börn skráð í tvo hópa, skipt eftir aldri. Það var virkilega ánægjulegt og gaman að vinna með hópunum, ýmislegt skemmtilegt var brallað í bland við samtöl og hugleiðingar. Markmiðið með starfinu, er að krakkarnir nái að kynnast í gegnum leik og afþreyingu, myndi tengsl og traust sín á milli. Með því getum við stutt þau í að miðla hvers til annars, reynslu og hugleiðingum varðandi uppruna og ættleiðingu. Þá er einnig unnið með sjálfsstyrkingu og sjálfsmynd í gegnum verkefni og afþreyingu sem höfðar til aldurs barnanna. Sömu starfsmenn verða og áður, Rut Sigurðardóttir félagsráðgjafi og starfsmaður Íslenskrar ættleiðingar og Kjartan Björn Elísson sem er ættleiddur frá Kólumbíu. Hann hefur mikla reynslu af vinnu með börnum og unglingum og starfar í dag sem stuðningsaðili í grunnskóla og á sambýli fyrir fötluð börn. Að auki munu aðrir fagaðilar koma inn í starfið, með mismunandi bakgrunn og þekkingu. Drög að dagskrá liggur fyrir, hún getur tekið breytingum en dagsetningarnar munu ekki breytast. Við erum að hittast frá klukkan 17.30 til 19.30. Verðið fyrir öll skiptin er 16.000.
Skráning er hafin á heimasíðu Íslenskrar ættleiðingar og stendur til 16. Janúar.
Yngri hópur, 18. Janúar, eldri hópur 22. Janúar – Myndlist undir handleiðslu Kristínar Bertu Guðnadóttur, myndlistarkonu, félagsráðgjafa og fjölskylduráðgjafa. Hér ætlum við að leika okkur með liti og málningu, með okkur sjálf í huga og reyna að koma því til skila á striga.
Yngri hópur, 8. Febrúar, eldri hópur 12. Febrúar – Sjálfsstyrking með Kristínu Tómasdóttur. Farið yfir hugtakið sjálfsmynd og farið yfir þær leiðir sem hægt er fara til að hafa áhrif á eigin sjálfsmynd.
Yngri hópur, 8. Mars, eldri hópur 12. Mars – útivist með Ásgeiri Péturssyni og Styrmi Magnússyni sem báðir eru félagsráðgjafar og með mikla reynslu af vinnu með börnum og unglingum. Við ætlum að fara í útivistarævintýri undir þeirra stjórn og takast á við skemmtileg verkefni.
Yngri hópur, 12. Apríl, eldri hópur 16. Apríl – matreiðsla með Ebbu Guðný. Við ætlum að hittast í Satt eldhúsi og læra að útbúa hollan og góðan mat/nesti.
Lesa meira
dv.is - „Ég finn fyrir fordómum daglega“
05.01.2018
Steinunn Anna Radha er íslensk, á íslenska foreldra og hefur búið á Íslandi nánasta alla sína ævi. Hún er nítján ára og ólst upp í Reykjavík. Steinunn sker sig úr fjöldanum á Íslandi því hún er dökk á hörund. Steinunn var átta mánaða gömul þegar hún var ættleidd frá Indlandi. Hún var lögð í mikið og gróft einelti í grunnskóla af því að hún var öðruvísi. Steinunn þróaði með sér þunglyndi og kvíða vegna eineltis. Hún hætti tímabundið í skóla vegna kynferðisofbeldis sem hún varð fyrir. Steinunn finnur daglega fyrir fordómum og mismunun vegna húðlitar síns. Hún vill vekja athygli á og opna umræðuna um kynþáttafordóma. Hún segir það algengt að fólk telji sig hafa leyfi til að segja hvað sem er við hana varðandi húðlit hennar, stærð eða fötlun.
Blaðamaður DV settist niður með Steinunni til að ræða um kynþáttafordóma á Íslandi. Í viðtalinu segir Steinunn frá atvikum sem eru henni einstaklega minnisstæð, hvernig væri hægt að sporna gegn fordómum og hvernig sé að vera brúnn Íslendingur.
Lesa meira
Snjallsímanotkun barna og unglinga
04.01.2018
Er eitthvað að óttast?
Björn Hjálmarsson barna- og unglingageðlæknir á BUGL heldur erindi um snjallsímanotkun barna og unglinga og hvort þar sé eitthvað að óttast. Hann fjallar í víðu samhengi um rafrænan skjátíma barna og unglinga. Tími sem hefur verið að lengjast á undanförnum árum eftir því sem tækninni fleygir fram og er spurningunni velt upp hvort "stafræna byltingin sé að borða börnin sín?"
Björn hefur unnið á BUGL frá 2013, en starfaði áður á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Erindið fer fram í húsnæði Framvegis, Skeifunni 11b, Reykjavík, 3.hæð, kl 17:30-19:00, miðvikudaginn 10.janúar 2018.
Boðið verður upp á barnapössun á meðan á erindinu stendur. Vinsamlegast skráið barn/börn.
Þeim sem eiga ekki heimangengt er boðið upp á erindið á netinu. Ókeypis er fyrir félagsmenn en kostar kr.1000 fyrir utanfélagsmenn.
Lesa meira
Leit
Gerast félagi
Íslensk ættleiðing er eina félagið á Íslandi sem hefur löggildingu stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. Félagið var stofnað af áhugafólki um málefnið árið 1978 og hefur reksturinn lengst af verið borinn uppi af sjálfsaflafé og miklu sjálfboðastarfi félagsmanna.
Árgjald Íslenskrar ættleiðingar er 4.900 krónur fyrir einstakling.