Fáðu fréttir og tilkynningar frá ÍÆ á netfangið þitt.
Flýtilyklar
Fréttir
Ferð til Tékklands
20.06.2017
Þann 8. maí s.l. lagði sendinefnd Íslenskrar ættleiðingar, ásamt fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, land undir fót og hélt til Tékklands. Tilgangur ferðarinn var fyrst og fremst að að hitta miðstjórnavald Tékklands og styrkja böndin við samstarfsaðila
Fundað var með miðstjórnvaldinu þar sem sendinefndin fékk kynningu frá þeim og þeirra starfi, frá deildarstjóra alþjóðlegra ættleiðinga. Dómsmálaráðuneytið kynnti starf ráðuneytisins og helstu aðila sem tengjast ættleiðingarmálaflokknum á Íslandi, s.s. Sýslumannsembættið og Barnavernd. Íslensk ættleiðing hélt svo kynningu á Íslenska ættleiðingamódelinu sem mikil ánægja var með og lærðu Tékkarnir eitt og annað um skipulag málaflokksins og samfélagsuppbyggingu á Íslandi.
Sendinefndin fékk kynningu á starfi barnaverndar Brno, en það er næst stærsta borg Tékklands og þar eru höfuðstöðvar ættleiðingamálaflokksins. Íslensk ættleiðing var með kynningu á starfi Barnaverndarnefndanna á Íslandi og fengu báðir aðilar góða innsýn í helstu strauma og stefnur í barnaverndarmálum.
Í Brno er safn um sögu Rómafólks og fékk sendinefndin leiðsögn um safnið (Museum of Romani Culture). Safnið er virkilega áhugavert og var heimsóknin mjög lærdómsrík.
Það sem stóð þó upp úr í ferðinni var að fá að heimsækja barnaheimilið í Most. Þar voru móttökurnar frábærar og kynntist hópurinn betur faglega starfinu þar og starfsfólki.
Ferðin heppnaðist afar vel og var mjög lærdómsrík. Það er því ekki spurning um að ferðin skilar aukinni þekkingu inn í félagið.
Lesa meira
Félagsráðgjafi bætist í ráðgjafateymið
20.06.2017
Á dögunum var bætt við starfsmanni í ráðgjafateymi Íslenskrar ættleiðingar með ráðningu Rutar Sigurðardóttur, félagsráðgjafa.
Hlutverk hennar verður að sinna gerð eftirfylgniskýrslna á höfuðborgarsvæðinu, sem verktakar hafa áður verið að sinna.
Hún mun einnig hafa á sinni könnu að þróa barna- og unglingastarf hjá félaginu og munu félagsmenn verða varir við þær breytingar á haustmánuðum. Þá mun hún sinna þróun á þjónustu félagsins við upprunaleit, en beiðnum um slíka þjónustu hefur stóraukist á síðustu misserum.
Rut Sigurðardóttir er fædd 24. Janúar 1980 og uppalin í Breiðholti. Eftir að hafa klárað félagsfræðibraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti tók við leit af því hvað framtíðinni ætti að bera með sér, hvað varðar starfsvettvang. Eftir að hafa reynslu af því að vinna á leikskóla og með unglingum á tímum menntaskólaáranna, lá leiðin til Danmerkur þar sem að hún settist á skólabekk í Odense til að læra uppeldis-/leikskólakennarafræði (pædagog). Það kom þó í ljós eftir eina önn í því námi að það væri eitthvað annað sem heillaði en það. Leiðin lá því aftur til Íslands og hóf hún nám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, haustið 2002. Þaðan lauk hún BA- gráðu með starfsréttindum vorið 2006. Samhliða námi starfaði hún á leikskóla, vann með unglingum í sumarstarfi og á Vistheimili barna.
Í beinu framhaldi af útskrift hóf hún störf hjá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða. Þar sinnti hún margvíslegum verkefnum félagsþjónustu. Kom meðal annars að málefum hælisleitanda og móttöku flóttamanna, sinnti endurhæfingarúrræðum og barnafjölskyldum. Hún var þar við störf fram til desember 2007 en flutti sig þá yfir til Barnavernd Reykjavíkur, þar sem hún starfaði þangað til í lok apríl 2017, fyrir utan tímabilið 2014-2015. Þá starfaði hún tímabundið sem sérfræðingur í málefnum utangarðsfólks á vegum Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða.
Árið 2012 hóf Rut störf sem verktaki hjá Íslenskri ættleiðingu, þar sem hún sinnti gerð eftirfylgnisskýrslna.
Árin 2014-2015 var hún við nám í Háskóla Íslands, samhliða vinnu. Um var að ræða diplómu í félagsráðgjöf með áherslu á barnavernd.
Rut er gift Amir Mulamuhic, en hann er frá Bosniu- Herzegovinu. Þau eiga tvær dætur, Lenu sem er fædd 2009 og Emmu sem er fædd 2012. Þau eru búsett í Mosfellsbæ.
Lesa meira
Frávarpspróf
20.06.2017
Umsækjendur um ættleiðingu þurfa að velja upprunaland þar sem umsókn þeirra bíður umsagnar. Hvert upprunaland gerir kröfur til umsækjendanna sem endurspegla gildi þjóðarinnar. Öll upprunalöndin sem Íslensk ættleiðing vinnur með krefjast sálfræðimats á umsækjendum. Tékkland gerir kröfu um tvennskonar sálfræðimat, persónuleikapróf og frávarpspróf eða eitthvert sambærilegt próf. Margir sálfræðingar á Íslandi hafa reynslu og þjálfun í að leggja persónuleikapróf fyrir fólk, en þeir eru færri sem hafa þjálfun í að leggja fyrir frávarpspróf.
Árið 2013 breyttust kröfurnar sem miðstjórnvald Tékklands gerir til umsækjenda og voru þá gerðar kröfur um frávarpspróf. Á þeim tíma leitaði félagið til Sálfræðingafélagsins en þar var enginn sem hafði þjálfun í frávarpsprófum. Eftir mikla leit fannst einn sálfræðingur sem hafði unnið með þessa tækni, en sálfræðingurinn er frá Tékklandi og lærði þar. Þessi sálfræðingur, Jiri Jón Berger, hefur verið búsettur á Akureyri og hafa umsækjendur sem hafa ákveðið að senda umsókn sína til Tékklands þurft að heimsækja höfuðstað Norðurlands til þess að taka frávarpspróf hjá Jiri.
Nú hefur Jiri ákveðið að flytja til Tékklands á ný og óljóst hvernig umsækjendur um ættleiðingu í Tékklandi geta uppfyllt kröfuna um frávarpspróf.
Íslensk ættleiðing hefur hafið viðræður við miðstjórnvald Tékklands um hvernig hægt er að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin.
Þangað til að niðurstaða hefur náðst, hefur Jiri boðist til að heimsækja Ísland reglulega til að leggja prófin fyrir.
Þeir sem eru að velta fyrir sér að senda umsókn til Tékklands á næstunni er bent á að bregðast við hið fyrsta og panta tíma hjá Jiri, áður en hann flytur af landi brott í júlí.
Lesa meira
Leit
Gerast félagi
Íslensk ættleiðing er eina félagið á Íslandi sem hefur löggildingu stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. Félagið var stofnað af áhugafólki um málefnið árið 1978 og hefur reksturinn lengst af verið borinn uppi af sjálfsaflafé og miklu sjálfboðastarfi félagsmanna.
Árgjald Íslenskrar ættleiðingar er 4.900 krónur fyrir einstakling.