Fáðu fréttir og tilkynningar frá ÍÆ á netfangið þitt.
Flýtilyklar
Fréttir
Visir.is - Hálfgerð systkinatenging
22.11.2014
Þau 59 börn sem ættleidd voru frá Indónesíu til íslenskra fjölskyldna á árunum 1981 til 1983 komu flestöll frá sama fósturheimili þar í landi. Fáein börn höfðu verið ættleidd fyrir þennan tíma í gegnum þriðja land. Fyrir nokkrum árum var stofnaður hópur á Facebook fyrir þennan hóp og eru nú fimmtíu manns meðlimir á þeirri síðu, þar á meðal Júlíus Þór Sigurjónsson og Laufey Karítas Einarsdóttir.
Júlíus: „Það var lítið sem gerðist fyrstu árin. Við vorum aðallega að safna saman fólki og bjóða því að vera með í hópnum á Facebook. En svo setti ég nokkrar spurningar á síðuna í haust sem kveiktu líflegar umræður og þá fórum við að ræða það að hittast í fyrsta skipti.“
Laufey: „Það byrjaði meðal annars umræða um nöfnin okkar en við eigum öll nöfn frá Indónesíu. Ég hét til dæmis Silvana og skírði elstu dóttur mína því nafni. Svo töluðum við um fósturheimilið sem við vorum flest á og skiptumst á upplýsingum sem við höfum um okkur og uppruna okkar.“
Lesa meira
Mbl.is - Fann tvíburasystur sína á Youtube
15.11.2014
Líf tvíburana Anais Bordier og Samantha Futerman tók heldur betur óvæntan snúning fyrir um það bil ári þegar vinur Bordier, sem er uppalin í Frakklandi, sendi henni skjáskot af myndbandi af Youtube, þar sem tvíburasystir hennar, Futerman, kom fyrir.
„Ég velti fyrir mér hver hefði sett myndband af mér á Youtube,“ segir Bordier við blaðamann CNN og hlær. Þegar hún kom heim til sín horfði hún aftur á myndbandið og áttaði sig á því að þetta væri ekki hún heldur stelpa sem leit nákvæmlega eins út og bjó í Bandaríkjunum.
Bordier lagðist í rannsóknarvinnu og komst að því hvaða kona væri í myndbandinu. Hún fann út að þær áttu afmæli sama dag og voru báðar ættleiddar frá sömu borg í Suður-Kóreu. Bordier ákvað í kjölfarið að senda Futerman skilaboð á Facebook.
Futerman, sem ólst upp í New Jersey í Bandaríkjunum, sagði að það hafi verið skrýtið að fá póst frá sjálfri sér á Facebook og dró hún það að svara skilaboðunum í nokkra daga en hugsaði svo með sér að þetta gæti verið satt.
Tengingin mjög sterk
Bordier segir að sem einkabarn hafi það verið magnað að komast að því að hún ætti systur. Hvað þá að vera tvíburi þar sem tvíburar eiga svo ótrúlega margt sameiginlegt. „Það er mjög sterk tenging á milli tvíbura sem er í raun ekki hægt að útskýra. Við skiljum hvora aðra án þess að þurfa að tala,” sagði Bordier.
Þær segja að foreldrar þeirra beggja séu hæstánægðir með fréttirnar, þó svo að þeir hafi verið í uppnámi fyrst, þar sem foreldrarnir vissu ekki að stelpurnar væru tvíburar þar sem það kom hvergi fram á pappírum við ættleiðingu.
„Mamma sagði að hún hefði ættleitt okkur báðar ef hún hefði vitað af því að það væri verið að slíta okkur í sundur,“ segir Futerman.
Systurnar hafa reynt að hafa samband við líffræðilegu móður sína en segja að hún hafi ekki áhuga á að endurnýja samband sitt við þær. „Ef við lærðum eitthvað af þessu, þá er það að allir hlutir gerast eins og þeir eiga að gerast,“ segir Futerman.
„Og ef hún vill hafa samband við okkur einn daginn, þá erum við hér, við erum til í það og við erum tilbúnar.“
Lesa meira
Hamingjustund
14.11.2014
Í dag sameinaðist fjölskylda í Kolin í Tékklandi.
Jón Ingi og Margrét hittu Söru Patrice í fyrsta skipti nú fyrir hádegið á barnaheimilinu. Sara var feimin til að byrja með en eftir að hún var búin að leggja sig tók hún við sér og var greinilega hrifin af foreldrum sínum. Í lok dagsins varð hún eftir á barnaheimilinu og þau mun hittast aftur á morgun. Þetta var dásemdar dagur og greinilegt að allir nutu sín vel.
Umsókn Jóns Inga og Margrétar var samþykkt af yfirvöldum í Tékklandi 16. september 2011. Þau voru svo pöruð við Söru Patrice 6. október 2014. Þau voru því á biðlista í þrjú ár. Þetta er níunda fjölskyldan sem sameinast með milligöngu félagsins á árinu. Nú hafa 16 börn verið ættleidd frá Tékklandi til Íslands.
Lesa meira
Leit
Gerast félagi
Íslensk ættleiðing er eina félagið á Íslandi sem hefur löggildingu stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. Félagið var stofnað af áhugafólki um málefnið árið 1978 og hefur reksturinn lengst af verið borinn uppi af sjálfsaflafé og miklu sjálfboðastarfi félagsmanna.
Árgjald Íslenskrar ættleiðingar er 4.900 krónur fyrir einstakling.