Fáðu fréttir og tilkynningar frá ÍÆ á netfangið þitt.
Flýtilyklar
Fréttir
Afgreiðsluhraði í Kína
04.11.2014
Kínverska ættleiðingarmiðstöðin (CCCWA) hefur tilkynnt að umsækjendur sem sóttu um til og með 14. desember 2006 hafi verið paraðir við barn. Að þessu sinni var unnið úr umsóknum sem bárust frá 12. desember fram til 14. desember, eða umsóknir sem bárust á 3 dögum.
Lesa meira
"Er ættleiðing fyrir mig? Fyrri hlutinn haldinn um helgina.
24.10.2014
Námskeiðið er tvískipt.
Fyrri hluti:
Laugardagurinn 25.október kl. 9:00 til kl: 16:00 sunnudaginn 26.október. Gert er ráð fyrir að allir gisti á staðnum. Staðsetning: Sveitasetrið við Laxá í Kjós, aðeins um 25 mínútna akstur frá Reykjavík.
Frekari upplýsingar um staðinn: Sjá http://sveitasetur.hreggnasi.is
Seinni hlutinn:
Laugardagurinn 22.nóvember kl: 8:00 til 17:00.
Staðsetning: Dillonshúsið í Árbæjarsafni. Kistuhyl 4, 110 Reykjavík.Fólk sem bíður eftir ættleiðingu er skylt að sækja fræðslunámskeið sem ÍÆ gengst fyrir, skv. reglugerð innanríkisráðuneytisins.
Námskeiðið er fyrir fólk sem er að taka fyrstu skrefin í ættleiðingarferlinu, og er hannað til að hjálpa til við að taka ákvörðun um hvort ættleiðing barns sé skuldbinding sem fólk treystir sér í.
Námskeiðið leitast við að svara áleitum siðferðilegum spurningum um ættleiðingu og spurningum eins og er ættleiðing fyrir mig? Hvernig er að vera kjörforeldri, hvað er eins / hvað er öðruvísi? Hver er ábyrgð mín sem kjörforeldris? Get ég staðið undir þeirri ábyrgð? Námskeiðið kynnir aðdraganda og undirbúning ættleiðingarinnar og einnig er fjallað um líf barnsins áður en ættleiðingin á sér stað. Til þess að þátttakendur geri sér betur grein fyrir aðstæðum þeirra barna sem bíða ættleiðingar er meðal annars notast við myndband um líf barna á munaðarleysingjaheimilum erlendis. Við skoðum hvað það er sem barnaheimilisbörnin fara á mis við og hvort mögulegt er að bæta þeim það upp? Uppbygging námskeiðsins byggist mikið á virkri þátttöku þátttakenda og hvað þeir fá út úr námskeiðinu liggur í virkni þeirra sjálfra.
Nokkru fyrir námskeiðið fá þátttakendur send tvö rit þau eru “Undirbúningsnámskeið fyrir umsækjendur um ættleiðingu erlends barns“ og “Heilsufar ættleiddra barna” sem Íslensk ættleiðing hefur látið þýða og laga að íslenskum aðstæðum. Eru þátttakendur beðnir um að lesa ritin vel fyrir þátttöku á námskeiðinu enda byggir námskeiðið fyrst og fremst á virkri þátttöku umsækjenda.
Undirbúningsnámskeiðið er sniðið eftir erlendu fræðsluefni og lagað að íslenskum aðstæðum.
Á námskeiðinu er þátttakendahópurinn blandaður, óháð því frá hvaða landi ættleitt er.
Lesa meira
Hamingjustund
22.10.2014
Í dag sameinaðist fjölskylda í Most í Tékklandi
Hermann og Ragnhildur hittu drenginn sinn Kolbein Mikael á barnaheimilinu í Most. Kolbeinn Mikael var varkár í fyrstu en sýndi leikföngin sín og var mjög forvitinn um Hermann og Ragnhildi. Hann lagði sig svo eftir matinn en að lúrnum loknum komu Hermann og Ragnhildur aftur á barnaheimilið og fóru út í garð með Kolbein Mikael, þar léku þau saman og höfðu það gott.
Umsókn Hermanns og Ragnhildar var samþykkt af yfirvöldum í Tékklandi á afmælisdegi Íslenskrar ættleiðingar, þ.e. 15. janúar 2013. Þau voru svo pöruð við Kolbein Mikael 23. september 2014. Þau voru því á biðlista í tuttugu mánuði. Þetta er áttunda fjölskyldan sem sameinast með milligöngu félagsins á árinu. Nú hafa 15 börn verið ættleidd frá Tékklandi til Íslands.
Lesa meira
Leit
Gerast félagi
Íslensk ættleiðing er eina félagið á Íslandi sem hefur löggildingu stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. Félagið var stofnað af áhugafólki um málefnið árið 1978 og hefur reksturinn lengst af verið borinn uppi af sjálfsaflafé og miklu sjálfboðastarfi félagsmanna.
Árgjald Íslenskrar ættleiðingar er 4.900 krónur fyrir einstakling.